136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

Bjargráðasjóður.

413. mál
[21:33]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal hefur allt á hornum sér gagnvart sjóðum, sjóðum sem fólk hefur safnað peningum í og eru núna, þegar hallar undan fæti hjá fólki, mjög af því góða. Í dag er gott að til er sjóður sem heitir Bjargráðasjóður sem verður sennilega til þess að hjálpa bændastéttinni við áburðarkaup í vor. Það er ekki við hæfi að gera lítið úr sjóðum. Stundum hefur verið sagt að hér hafi menn gengið illa um sjóði, m.a. eytt þeim öllum í vitleysu í staðinn fyrir að eiga þá til vara þegar í harðbakkann slær.

Við eigum lífeyrissjóði og þeir eru góðir þrátt fyrir að ýmsu megi breyta þar eins og því hverjir eru skipaðir í stjórn og eins útgreiðslum úr sjóðum með ýmsum hætti, og lögum og reglum í kringum lífeyrissjóði má breyta. Við eigum sjúkrasjóði í flestum stéttarfélögum landsins sem koma sér vel þegar fólk verður sjúkt og þarf að leita aðstoðar. Við erum með Atvinnuleysistryggingasjóð sem borgar atvinnuleysisbætur og það er borgað í hann þegar vel gengur og vel árar og allir borga hluta af honum. Það er ótrúlegt að leggja svo að jöfnu greiðslur sem ríkið borgar og svo aftur það sem er tekið af atvinnugreininni sem slíkri, eins og hv. þingmaður hefur stundum gert. Ég hef hlustað á hann tala um búnaðarþing og hverjir borguðu það og rekstur á Búnaðarsambandinu annars vegar og svo aftur það sem er t.d. í greiðslumiðlunarsjóði sjávarútvegsins sem er 1% af útflutningstekjum. (Forseti hringir.) Það er auðvitað ýmislegt sem þarf að skoða (Forseti hringir.) í þessu sambandi en sjóðirnir eru af því góða.