136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

Bjargráðasjóður.

413. mál
[21:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður sagði: Sjóðir sem fólk hefur safnað peningum í. Það er ekki rétt. Þetta eru sjóðir sem fólk hefur verið látið safna peningum í með lögum og með skyldu. Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti því, það getur verið skynsamlegt ef það er ekki orðið stofnanagert. Ég er ansi hræddur um að Bjargráðasjóður sé einmitt dæmi um sjóð sem er stofnanagerður. Það er of mikill kostnaður, of lítill sveigjanleiki. Ég vara við því vegna þess að gjaldið er lagt á alla bændur, er lagt á fátæka sem ríka bændur, tekjuháa sem tekjulága. Það eru sérstaklega þeir tekjulágu sem hugsanlega eru að borga mjög mikið þannig að þetta gjald getur orðið mjög ófélagslegt. Þeir fá kannski ekki fyrirgreiðslu úr Bjargráðasjóði og fengu ekki á sínum tíma úr Lánasjóði landbúnaðarins af því að þeir voru ekki nógu ríkir, þeir höfðu ekki veð.

Ég hef gagnrýnt búnaðargjaldið af þessum sökum, ég gagnrýni líka lífeyrissjóðina vegna þess að lýðræðið er svo veikt í þeim. Nú kemur í ljós að þeir tapa helling. Ber einhver ábyrgð þar, herra forseti? Ég spyr hv. þingmann: Ber einhver ábyrgð á lífeyrissjóðunum? Hvernig eru stjórnirnar kosnar? Þetta eru félagsleg fyrirbæri. Það eru stéttarfélög og Samtök atvinnulífsins sem tilnefna stjórnir lífeyrissjóðanna. Hvernig er á báðum þessu stöðum valið í stjórnir? Koma sjóðfélagar eitthvað að því?

Það er eins með sjúkrasjóðina. Hver skipar stjórnir í sjúkrasjóðina? Atvinnuleysistryggingasjóður er reyndar að verða tómur og svo gleymdi hv. þingmaður ríkissjóði. Hann stendur vel. Eftir góðærið, 18 ára góðæri, var ríkissjóður nánast skuldlaus og afskaplega vel í stakk búinn til að taka á móti þeim áföllum sem yfir þjóðina hafa dunið.