136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

Bjargráðasjóður.

413. mál
[21:41]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um Bjargráðasjóð. Mig langar að blanda mér aðeins í þessa umræðu, þó á nokkuð öðrum nótum en hv. þm. Pétur Blöndal. Það vill svo til að ég hef setið í samgöngunefnd frá því um vorið 2007 og á síðasta þingvetri var til umræðu í þinginu frumvarp sem snerist um að fella brott lög um Bjargráðasjóð. Það frumvarp fékk ekki framgang í samgöngunefnd vegna þess að það kom í ljós í meðförum nefndarinnar að það var verulegur uggur í hópi bænda vegna þeirra fyrirætlana að leggja sjóðinn niður. Þetta frumvarp er kannski viðbragð við því. Hins vegar lá fyrir að sveitarstjórnarmenn töldu ekki þörf á því að þeir hefðu aðkomu að Bjargráðasjóðnum og það var kannski ekki síst þess vegna sem frumvarpið kom fram í fyrra.

Í vetur kom þetta nýja frumvarp fram og eins og fram kemur á nefndarálitinu frá samgöngunefnd stöndum við sjálfstæðismenn að málinu. Ég skrifaði undir nefndarálitið án fyrirvara, ég hef ekki fyrirvara við efnisatriði málsins en mér finnst það samt þess eðlis að mig langar til að rekja nokkur atriði í því hvernig til þess kom að svona mikil breyting varð á málinu frá síðasta vetri.

Margt má segja um sjóði af ýmsum toga eins og hv. þm. Pétur Blöndal ræddi áðan. Hann hefur mikinn áhuga á því skipulagi öllu saman en Bjargráðasjóður er um margt mjög merkilegur sjóður. Hann er aldinn mjög, stofnaður með lögum árið 1913 og það er dálítið skondið við núverandi aðstæður, í þeim erfiðleikum sem nú steðja að, að hann var einmitt settur á laggirnar í þeim tilgangi að hjálpa landsmönnum í hallæri eða til að afstýra því.

Hallæri er það að sveitarfélag sé svo illa statt að það megni ekki af eigin rammleik að forða mönnum og skepnum við harðrétti eða felli.

Þetta orðalag er tímanna tákn árið 1913 en þegar maður les þetta núna og hugsar um þau ósköp sem dunið hafa yfir getur vel verið að við séum í mörgu öðru tilliti að vinna að löggjöf sem minnir um margt á Bjargráðasjóð þótt í þessu tilviki sé verið að losa sveitarfélögin undan sjóðnum, eins og ég nefndi áðan.

Strax árið 2007 kom fram mikil ósk um það frá sveitarfélögunum að þessi sjóður yrði leystur upp. Vandinn hins vegar var töluvert fólginn í því hvernig ætti að gera það og það hvernig ætti síðan að fara með þetta fé sem sveitarfélögin hafa sett í sjóðinn. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Samband íslenskra sveitarfélaga í Borgartúni, þar sem Bjargráðasjóður hefur líka haft aðsetur sitt, hafi forkaupsrétt að þeirri fasteign. Það er verið að tryggja að það sé þá til hagsbóta fyrir sveitarfélögin.

Eignarhlutur hvers og eins sveitarfélags í Bjargráðasjóði hefur aldrei verið skilgreindur en í frumvarpinu er miðað við að hlutur sveitarfélaganna renni til Sambands íslenskra sveitarfélaga í heild sinni. Ég held að í sjálfu sér sé eðlilegt að það sé gert svona vegna þess að var ekki hægt að átta sig á því hvernig ætti að fara með hvert einstakt sveitarfélag. Ég verð að vera ósammála því sem kom fram áðan, ég held að það sé ekki óeðlilegt við þessar aðstæður að gera þetta svona og ég styð aðferðina í frumvarpinu.

Hvað svo verður um Bjargráðasjóð í framtíðinni er erfitt að spá. (Gripið fram í: Það er ekki hægt.) Það er svo margt sem dynur yfir þjóðina þessa dagana og ekki síst bændur landsins, það er vont að átta sig á því hvað um sjóðinn verður. Ég held þó í ljósi þess hversu mikla áherslu bændur leggja á að B-hluti sjóðsins sé þeim til hagsbóta sé eðlilegt að hann sé tryggður áfram sem og það hlutverk búnaðardeildarinnar eða B-deildarinnar að bæta meiri háttar tjón hjá einstaklingum og félögum vegna sjúkdóma og óvenjulegs veðurfars og slysa sem orðið geta. Allt umfang og allt eðli málsins er mjög til þess fallið að mínu mati að styðja við bændur í landinu. Ég held að það sé eðlilegt, eins og ég sagði áðan, og að mörgu leyti í ljósi atburða þessa vetrar að frumvarpið verði að lögum núna þótt málið sé töluvert eldra, einmitt til þess að passa upp á að áfram sé haldið til haga þeim sjónarmiðum sem hafa ríkt gagnvart Bjargráðasjóði um áratugaskeið þar sem horft er sérstaklega til bændastéttarinnar og áður til minni sveitarfélaga þótt það hafi raunar breyst núna.

Ég segi fyrir mína parta, og þess sér stað, eins og ég sagði áðan, í niðurstöðu nefndarinnar, að ég er ánægð með að þetta mál skyldi hafa verið leyst með þessum hætti og að við skyldum hafa getað klárað það að í stað þess að leggja sjóðinn niður, eins og við ætluðum að gera í upphafi, höfum við fundið leið til að hann muni áfram nýtast bændum, a.m.k. núna um nokkurt skeið til viðbótar.