136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

greiðslur til líffæragjafa.

259. mál
[22:33]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar um frumvarp til laga um greiðslur til líffæragjafa.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið ýmsa gesti á sinn fund. Nefndin hefur auk þess fengið umsagnir frá völdum aðilum.

Í frumvarpinu er kveðið á um að líffæragjöfum sem eru virkir þátttakendur á vinnumarkaði eða stunda nám verði að ákveðnum skilyrðum uppfylltum veittur réttur til tímabundinna greiðslna geti þeir ekki stundað vinnu sína eða nám vegna gjafarinnar. Lifandi líffæragjafar þurfa jafnan að leggja niður störf tímabundið eða, eftir atvikum, gera hlé á námi með tilheyrandi röskun og tekjutapi.

Þau atriði sem fengu hvað mesta umfjöllun í nefndinni voru heiti frumvarpsins og markmið þess, greiðslur til líffæragjafa sem verða óvinnufærir að hluta, greiðslur til lífeyrissjóða sem og framkvæmd greiðslna samkvæmt frumvarpinu. Þá var lyfjakostnaður líffæragjafa og annar kostnaður sem fylgir líffæragjöf talsvert ræddur ásamt réttindum námsmanna sem gefa líffæri, gildistíma frumvarpsins og fjárhagslegum grundvelli þess.

Í athugasemdum frumvarpsins er þess getið að alvarleg bilun lífsnauðsynlegra líffæra sé vaxandi heilbrigðisvandamál og eru nýru þau líffæri sem oftast eru grædd í sjúklinga. Í skýrslu vinnuhóps um stöðu lifandi líffæragjafa kemur fram að með hverri líffæragjöf sparist þjóðfélaginu mikið fé. Þá hefur nefndin fengið upplýsingar frá félags- og tryggingamálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti sem sýna fram á að nýrnaígræðsla sé mun ódýrari kostur en skilunarmeðferð á sjúkrahúsi. Þá þarf að tryggja að fjárhagslegt tap sem tímabundin óvinnufærni vegna líffæragjafar hefur í för með sér letji ekki fólk frá því að gefa líffæri sé þess kostur og þörf. Nefndin fagnar því að líffæragjafar fái fjárhagslegan stuðning hins opinbera ef til launataps kemur. Nefndin telur eðlilegt að vísa í heiti til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar í stað greiðslna enda ekki um að ræða eiginlegar greiðslur fyrir gjöfina heldur til að bæta fjárhagslegt tap sem verður af óvinnufærni gjafans. Þá telur nefndin eðlilegt að í heiti frumvarpsins sé vísað til þess að um lifandi gjafa sé að ræða.

Hæstv. forseti. Nefndarálitið sem er nokkuð ítarlegt liggur frammi þingmönnum til kynningar og auðvitað á vef þingsins eins og önnur þingskjöl. Ég læt nægja að ljúka tölu minni um þetta mál með því að ítreka vilja nefndarinnar og skilning hennar á því hversu gott mál er hér á ferðinni. Þetta er spurning um líf og heilsu og lífsgæði þeirra sem í hlut eiga. Ef fólk á þess kost að fá gefið nýra, þ.e. þeir sjúklingar sem fara í skilunarvél, og einhver þeim nákominn getur gefið nýra þá léttir það mjög stöðu líffæragjafans að fá a.m.k. greitt vinnutap sitt, sem verður eðlilega við líffæragjöfina. Að auki telur nefndin engum blöðum um það að fletta að til langs tíma sé það þjóðhagslega hagkvæmt, eins og það er orðað, og spari þjóðfélaginu umtalsverða fjármuni í heilbrigðiskerfinu að gera þetta með þessum hætti.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem liggja fyrir og gerð er grein fyrir í þingskjali frá félags- og tryggingamálanefnd.

Árni Johnsen var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir þetta nefndarálit rita auk þeirrar er hér stendur Þuríður Backman, Magnús Stefánsson, Ármann Kr. Ólafsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Atli Gíslason og Kristinn H. Gunnarsson.