136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

lyfjalög.

445. mál
[23:37]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegur forseti. Við erum hér að ræða frumvarp til laga um breytingu á lyfjalögum, eins og fram hefur komið og hv. þm. Ásta Möller fór ágætlega yfir. Hv. þm. Ásta Möller fór hér mikið yfir það sem rétt er að ástæðan fyrir því að menn fresta þessu er sú að núverandi ríkisstjórn og núverandi ráðherra treystu sér ekki til að klára það verk sem hafið var, hið mikla réttlætismál sem unnið var undir forustu hv. þm. Péturs H. Blöndals, sem var formaður þeirrar nefndar en varaformaður var hæstv. núverandi félagsmálaráðherra, og miðaði einfaldlega að því að gera greiðsluþátttöku í heilbrigðisþjónustu réttlátari en nú er.

Hvað þýðir það? Nálgunin var einfaldlega sú að þeir sem þurfa mikið á þjónustunni að halda greiddu minna á meðan þeir sem þurfa endrum og sinnum á þjónustu að halda greiddu meira. Það er þessi einfalda hugmyndafræði sem menn lögðu af stað með og voru að vinna úr og það er auðvitað mikill skaði, virðulegi forseti, afskaplega mikill skaði að þessar hugmyndir hafi verið lagðar á hilluna og ekki sé verið að vinna í þessu mikla réttlætismáli. Það þýðir bara að það fólk sem þarf mikið á þjónustunni að halda getur lent í því núna, eins og hv. þm. Ásta Möller fór ágætlega yfir, að þurfa að greiða mjög mikið fyrir þjónustuna.

Það eru fleiri þættir í þessu, þetta er ein af þeim aðgerðum sem nú er verið að fresta sem tengist aðgerðum sem voru gerðar á lyfjamarkaðnum í tíð minni sem ráðherra og hafa haft þau áhrif að lyfjakostnaður hér á Íslandi hefur lækkað gríðarlega. Allar úttektir sem gerðar hafa verið hafa sýnt fram á að hlutfall frumheitalyfja í lyfjanotkun landsmanna sé miklu hærra en annars staðar á kostnað samheitalyfja, sem hefur leitt af sér að hér hefur verið mun hærra verð og lítil samkeppni, lokaður markaður og lyfjaverð hefur verið mun hærra en það sem gengur og gerist í öðrum löndum. Í tíð minni sem ráðherra ákvað ég að ganga í það verk að ná fram lækkun á lyfjakostnaði, bæði fyrir ríkið, sem greiðir stærsta hluta kostnaðarins, og líka fyrir þá sem þurfa á lyfjunum að halda.

Þetta gekk mjög vel og þær aðgerðir, sem gengið var í á síðasta ári, skiluðu sér í sem svarar eins og hálfs milljarðs kr. lækkun á lyfjakostnaði bara á því ári og sá kostnaður mun halda áfram að lækka núna. Stærsta einstaka ákvörðunin sem leiddi af sér lækkun lyfjaverðs, þó að farið væri í mjög margar, — raunar fórum við í allar þær aðgerðir sem við töldum að væru nauðsynlegar og líklegar til að lækka lyfjaverð og ætla ég ekki að fara yfir þær allar núna, virðulegi forseti, heldur einbeita mér frekar að því sem snýr að þessu máli — er að við afnámum svokallaða afslætti í heildsölu og í rauninni smásölu líka, sem við erum að fara að fresta núna. Hvað þýðir það? Það þýðir að við gerðum lyfjaverð gegnsærra og markaðinn opnari.

Einhver kynni að spyrja. Hvernig í ósköpunum er það gert með því afnema afslætti eða heimila ekki afslætti af lyfjaverði i heildsölu? Þá er skemmst frá því að segja að markaðurinn á Íslandi er þannig og það hefur komið fram í úttekt samkeppnisyfirvalda að tveir stórir aðilar eru með 70–80% af markaðnum. Það er augljóst að þeir heildsalar sem ætluðu að koma vörum sínum á markað þurftu að veita þessum aðilum meiri afslætti en smærri aðilum sem kepptu við þá og sú var reyndin. Afslættirnir skiluðu sér ekki til neytenda en með því að breyta þessu á þann veg að veita þyrfti sama verð til allra aðila jókst í raun verðsamkeppnin og kostnaður lækkaði. Það er stærsta einstaka ástæðan fyrir því að kostnaður lækkaði um einn og hálfan milljarð.

Þetta var ekki hugmynd sem sérfræðingar ráðuneytisins og þeir sérfræðingar sem kallaðir voru til til að vinna þetta komust að upp á eigið einsdæmi, þetta er eitthvað sem stærri þjóðir gerðu líka, bæði Þjóðverjar og Danir, og alltaf með sama árangri, þ.e. að lyfjaverð lækkaði.

Ástæðan fyrir því að ég tek þetta hér upp, þó að málið fjalli ekki um afslætti í heildsölu heldur afslætti í smásölu, er sú að einn ágætur hagsmunaaðili sendi tölvupóst til allra þingmanna þar sem hann fór fram á það að ákvæðinu sem heimilaði ekki afslætti í heildsölu yrði frestað. Ef einhver þingmaður skyldi fá þá hugmynd að þetta væri eitthvað sem ætti að gera, þ.e. að taka þetta út líka, þá er það bein ávísun á hækkað lyfjaverð. Þó að mjög margt gott hafi verið gert í lyfjaverðsmálum í tíð minni sem ráðherra í síðustu ríkisstjórn, þá er þetta það sem án nokkurs vafa hafði mestu áhrifin.

Þetta er hins vegar, eins og ég nefndi, bara einn liður í því að lækka verð og það er málefnalegt og eðlilegt að bíða með að afnema afslætti í smásölunni, eins og við erum að gera hér, og ástæðan er sú að við höfum kannski ekki jafnmikla vissu og við viljum hafa fyrir því að slík aðgerð mundi skila sér til neytenda og erfitt væri að leiðrétta það ef einhver brotalöm yrði á því þegar þing er ekki starfandi því að við viljum ekki skapa neinn óróa eða valda því fólki sem þarf á lyfjum að halda því að það mundi hugsanlega ekki njóta jafnhagstæðs verðs á einhverjum lyfjum og mögulegt er.

Þess vegna er alveg málefnalegt og eðlilegt og við sjálfstæðismenn tökum þátt í því að fresta gildistöku þessara laga fram á 1. janúar 2010. Það er mjög mikilvægt að það verk sem unnið hefur verið að baki brotnu undir forustu hv. þm. Péturs H. Blöndals verði klárað. Þar var ekki ekki bara verið að taka lyfjamálin heldur voru menn að taka allan kostnað heilbrigðisþjónustunnar, vegna þess að ef fólk verður veikt og langveikt þarf það á margvíslegri þjónustu að halda. Það breytir engu, virðulegi forseti, hvað kostnaðurinn heitir. Aðalatriðið er að ef fólk er langveikt þarf það að leggja út fjármuni og þess vegna var lagt af stað í þá vinnu að jafna kostnaðinn þannig að þeir sem þurfa mest á þjónustunni að halda greiði eins lítið og mögulegt er og að þak sé á slíku alveg sama hver kostnaðurinn er og hvort hann er í tengslum við sjúkrahús, eða í tengslum við heilsugæslu, sérfræðinga eða lyfjameðferð.

Það er afskaplega slæmt að eitt af því fyrsta sem núverandi heilbrigðisráðherra gerði var að leggja þessi áform á hilluna. Það gerir það að verkum, virðulegur forseti, eins og ég nefndi hér áðan, að það fólk sem þarf mest á þjónustunni að halda er enn og aftur í þeirri stöðu að þurfa hugsanlega að greiða verulegar fjárhæðir fyrir læknis- og lyfjaþjónustu. Það eru engin málefnaleg rök fyrir því að hafa frestað þessu, nákvæmlega engin.

Ég hef heyrt, hæstv. ráðherra — því miður er enginn úr stjórnarliðinu hér til að ræða þessi mál og skiptast á skoðunum við okkur og því þurfum við bara að tala til þjóðarinnar í þessu máli og það er mjög mikilvægt að skilaboð okkar komist áleiðis — en ég held að ég fari alveg rétt með þegar ég túlka sjónarmið hæstv. ráðherra, að hann segir að málið hafi ekki verið komið nógu langt og umræðan í nefndinni hafi ekki verið í nógu góðum farvegi. Gefum okkur það, umræðunnar vegna að það sé rétt, að einhverra hluta vegna hafi vinnan í nefndinni verið þess eðlis að hún hafi ekki verið komin nógu langt eða segjum bara að hún hafi verið komin í öngstræti. Þá hefur hæstv. ráðherra alla möguleika á að gera þær mannabreytingar á nefndinni sem þarf eða gera allt til þess að rétta þann kúrs, ef hæstv. ráðherra trúir því að það hafi verið meinið. Það var ekki gert, virðulegi forseti. Það sem var gert var — og hér er hv. þm. Pétur H. Blöndal og hann leiðréttir mig bara úr sæti ef ég hef rangt fyrir mér — að nefndin var lögð niður. (PHB: Nefndin var beðin um að skila.) Hv. þingmaður kallar hér fram að nefndin hafi verið beðin að skila, væntanlega einhverri áfangaskýrslu því það átti ekki að gera neitt með niðurstöðuna.

Það er svolítið sérstakt þegar vinstri stjórn, sem kennir sig við fögur og háleit markmið, og ég held að flestir fái þá tilfinningu þegar þeir hlusta á vinstri menn tala að þeir beri fyrst og fremst umhyggju fyrir þeim sem minnst mega sín. Ég held að það sé óhætt að halda því fram að þannig tali vinstri menn. Hér er akkúrat dæmi um það að það er fyrst og fremst tal. Hvað er hægt að finna meira, hvaða mál er þess eðlis að það snerti meira þá einstaklinga sem minnst mega sín en nákvæmlega þetta mál? Virðulegur forseti. Ég á mjög erfitt með að átta mig á því.

Hér er einfaldlega um það að ræða að unnið hefur verið að í marga, marga mánuði og miklu hefur verið til kostað til að lækka kostnað á þeim sem þurfa mest á heilbrigðisþjónustu að halda að færa þann kostnað sem á að greiðast af kerfinu í auknum mæli yfir til þeirra sem þurfa endrum og eins á því að halda. Nei, virðulegi forseti, nefndinni sem hafði unnið þetta í langan tíma, kallað til fjölda sérfræðinga, aflað mikilla upplýsinga, var gert bara að skila áliti og hún send heim og engar áætlanir um að neitt yrði gert í þessa veru.

Að vísu, virðulegur forseti, heyrði ég einhvers staðar í yfirlýsingu ráðherra að það sem ætti að taka sérstaklega út væru lyfjamálin og það ætti að koma með kerfi sem átti að taka gildi 1. apríl sem átti bara að vera fyrir lyfjamálin. Hér er náttúrlega enginn til svara af stjórnarliðinu, hér erum bara við sem erum í stjórnarandstöðunni en enginn af þeim aðilum sem styðja þessa minnihlutastjórn er hér til svara. En eftir því sem ég best veit bólar ekkert á (GMJ: Forseti styður ríkisstjórnina.) neinni kerfisbreytingu varðandi endurgreiðslu fyrir lyf.

Hv. þm. Grétar Mar Jónsson kallaði hér fram að forseti styðji ríkisstjórnina. Virðulegi forseti. Það hefur ekkert komið fram í umræðunni í kvöld sem bendir til þess og því skulum við bara leyfa virðulegum forseta að njóta vafans. Sem betur fer gerist það stundum að hv. þingmenn þroskast frá villu síns vegar og sjá að sér og nú er kominn nokkur flótti í þingmenn Samfylkingarinnar — já, það er best í umræðunni um lyfjamál, virðulegur forseti, að detta ekki alveg inn í þetta. En ég hef alveg ágæta trú á því að einn daginn muni virðulegur forseti sjá að sér hvað þetta varðar. Hvort það verður í kvöld eða núna næstu daga hef ég ekki hugmynd um, en virðulegur forseti og hv. þm. Einar Már Sigurðarson er svo skynsamur maður að það eru mjög miklar líkur á því að hann verði ekki alla tíð í Samfylkingunni.

Hér erum við hins (Gripið fram í.) vegar að ræða lyfjamálin. (Gripið fram í.) Hv. þm. Grétar Mar Jónsson, fyrrverandi varaþingmaður fyrir Alþýðuflokkinn segir að ekki fari virðulegur forseti í íhaldið og er þá að vísa í gamalt nafn á Sjálfstæðisflokknum eða sem sagt fyrirrennara hans en Sjálfstæðisflokkurinn er sameinaður úr tveim flokknum, Íhaldsflokknum og Frjálslynda flokknum, og það voru þá tveir hægri flokkar. Nú eru líka tveir hægri flokkar, Sjálfstæðisflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn, og úr því að hv. þm. Grétar Mar Jónsson gat ratað frá Jafnaðarmannaflokki Íslands yfir í Frjálslynda flokkinn er ekkert útilokað í þessum heimi. Hann getur kannski í umræðu einhvern tíma útskýrt það fyrir okkur af hverju hann fór frá vinstri til hægri en ég veit ekki hvort það gerist núna í umræðunni um lyfjalögin.

Það er hins vegar athyglisvert og kannski var það ástæðan, að hv. þm. Grétar Mar Jónsson sá þegar hann var að vinna með vinstri mönnum að hér voru menn kannski fyrst og fremst frekar að tala um, eins og hér, að bæta hag þeirra sem minna mega sín en þegar kom til efndanna var minna um þær, eins og þetta mál er gott dæmi um.

Við sjálfstæðismenn styðjum hins vegar þessa breytingu vegna þess að við teljum að það sé skynsamlegt að klára þetta verk sem var unnið undir forustu hv. þm. Péturs Blöndals og undir varaformennsku núverandi hæstv. félagsmálaráðherra, Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur. Ég verð að viðurkenna, svo að maður beri nú blak af fyrrverandi samstarfsflokki, að ég varð ekki var við annað en að mikill áhugi væri innan Samfylkingarinnar á að klára þessa kerfisbreytingu, þetta mikla réttlætismál. Hins vegar tóku Vinstri grænir sig til og sneru Samfylkinguna augljóslega niður í þessu máli og Samfylkingin þurfti bara að lúta í gras hvað þetta mál varðaði og sömuleiðis varðandi ýmis önnur mál eins og Evrópumálin og ýmislegt annað. Það er bara svo að Samfylkingin játaði sig sigraða. Ég veit ekki til þess að frá samfylkingarþingmönnum hafi heyrst eitt einasta orð um þetta mál, en þeir töluðu mikið og héldu langar ræður um mikilvægi þess að þessu kerfi yrði breytt, bæði í þingsölum og annars staðar.

Fyrir þann sem horfir á þetta úr fjarska, ég held að viðkomandi aðili geti ekki komist að neinni annarri niðurstöðu en að Samfylkingin hafi verið mjög sátt við að þessu hafi öllu verið stungið undir stól og að allri þeirri vinnu sem lögð var í þetta og var komin á það stig að hægt var að fara að klára málið, hafi verið stungið ofan í skúffu í ráðuneytinu. Og það er fullt af slíkum málum í skúffum í ráðuneytinu. Ég leit á það sem mitt hlutverk að taka þetta úr skúffunum og koma til framkvæmda en hér er ekki um slíkt að ræða og þess vegna erum við að ræða þetta mál.

Við höfum náð gríðarlegum árangri í lyfjamálunum, við höfum náð gríðarlegum árangri þegar kemur að kostnaðinum og það var gert í tíð síðustu ríkisstjórnar. Núna erum við hins vegar að fresta máli, eins og ég nefndi, vegna þess að núverandi ríkisstjórn ákvað að láta þetta mikla réttlætismál bara bíða, í besta falli. Ég er ansi hræddur um, miðað við hvernig hæstv. heilbrigðisráðherra hefur talað að það verði miklu meira en að bíða, þetta gangi út á það að láta málið deyja og eru það slæmar fréttir, virðulegur forseti, fyrir þá sem þurfa mest á þjónustunni að halda og bera núna gríðarlega mikinn kostnað.

Virðulegi forseti. Það eru ekki margir viðstaddir til að taka þátt í umræðu um þetta hér í kvöld en það breytir ekki eðli málsins.