136. löggjafarþing — 116. fundur,  26. mars 2009.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[01:23]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Það er endalaust hægt að rífast um það hvort ég hafi verið flutningsmaður að málinu. Ég ætlaði að vera það í upphafi en eftir að gestir komu á fund nefndarinnar taldi ég það ótækt. Reyndar var ég strax í upphafi með fyrirvara, bæði við rækjuþáttinn og eins karfaþáttinn í frumvarpinu. Ég gat stutt það að skólaskip eins og Dröfnin sem sigla með skólakrakka þyrftu ekki kvóta og ég gat líka stutt það að Hafrannsóknastofnun þyrfti ekki kvóta þó að hún fái verulega kvóta til rannsóknarverkefna sinna. Mér fannst það allt í lagi eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu.

Eftir að hafa hlustað á umsagnir Fiskistofu og þessara ágætu gesta, Arthurs Bogasonar fyrir hönd Landssambands smábátaeigenda og svo Magnúsar Daníelssonar, útgerðarmanns í Njarðvíkum, sá ég ekki möguleika á að styðja þetta með einum eða neinum hætti í þingi. Ég hafði óskað eftir því við formann nefndarinnar, hv. þm. Atla Gíslason, að þetta yrði tekið með í umræðunni um frjálsar handfæraveiðar. Ég vissi ekki betur um tíma en að til stæði að gera það. Svo var því einhverra hluta vegna breytt og ekki gert. Það hefði farið betur ef það hefði verið gert, við hefðum lagt vinnu í að útfæra frjálsar handfæraveiðar og taka þá þær aðgerðir sem eru lagðar til í frumvarpinu um að kvótasetja frístundabáta inn í frumvarpið um frjálsar handfæraveiðar. Það hefði rúmast þar vel, á alveg heima þar og þess vegna finnst mér ótrúlegt að menn skuli ætla að halda áfram.

Ég átti svo sem ekki von á öðru frá Sjálfstæðisflokknum en að hann vildi það, ég átti líka von á því að Samfylkingin vildi litlu breyta þar sem hún hefur ekki sýnt neina burði til að vilja breyta fiskveiðistjórnarkerfinu upp á síðkastið, en kannski fannst mér afstaða Vinstri grænna verst. Ég hélt úr því að þar væru menn sem höfðu lýst yfir stuðningi við frumvarp okkar í Frjálslynda flokknum um frjálsar handfæraveiðar, eins og hv. þm. Jón Bjarnason og fleiri, að þá yrði frumvarpið um frjálsar handfæraveiðar tekið til umræðu. Það hefur ekki fengist afgreitt út úr nefndinni og ekki einu sinni umsagnir um það enn þá þannig að ég veit ekki hvar málið er statt en það liggur enn þá í nefndinni og eftir því sem mér sýnist er meiningin að afgreiða það ekki út úr henni. Það er ekki hægt að sjá eða skilja neitt annað en að það sé með þeim hætti.

Þegar frjálsa framsalið var sett á og braskið byrjaði upphófst, eins og margir ágætir hagfræðingar benda á, ógæfan í íslenskum fjármálum, þ.e. með frjálsa framsalinu í íslenskum sjávarútvegi. Menn byrjuðu að veðsetja fiskinn í sjónum óveiddan, leigja hann og selja, eins og Þorvaldur Gylfason hagfræðingur hefur sagt. Fleiri ágætir hagfræðingar hafa haldið því fram að ógæfan hafi byrjað þar og því finnst mér ótrúlegt að menn ætli enn að halda áfram að kvótasetja.

Ég minntist á Vinstri græna. Þegar Alþýðubandalagið var og hét var þar þingmaður sem er núna formaður í Vinstri grænum og heitir Steingrímur J. Sigfússon, núna hæstv. ráðherra. Þegar hann var í ríkisstjórn 1990 greiddi hann atkvæði með frjálsa framsalinu. Hann tók þátt í að innleiða kvótabrask á Íslandi, hann studdi það. Eftir það, frá 1991–1995, var hann formaður í minni hluta í sjávarútvegsnefnd. Hann hefði örugglega ekki fengið þann heiður sem alþýðubandalagsmaður að vera formaður sjávarútvegsnefndar í minni hluta þegar Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur voru í meiri hluta nema gera sem þeim líkaði. (Forseti hringir.) Með þessum hætti má segja að kannski séu komnar allar skýringarnar á því af hverju fjórflokkurinn er (Forseti hringir.) eins og hann er.