136. löggjafarþing — 116. fundur,  26. mars 2009.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[01:44]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Fl) (andsvar):

Það er alveg rétt hjá hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur að ég er á þessu máli. Síðan gerist það að fólk kemur til nefndarinnar, m.a. fiskistofustjóri, sem benti á það eða lét að því liggja að það þurfi nánast eftirlitsmenn, alveg gríðarlegan fjölda eftirlitsmanna til að hægt sé að framkvæma þetta ef vel á að vera. Hv. þingmaður veit það. Svo komu ýmis önnur mál fram, ýmsar aðrar ábendingar um að þetta væri ekki algjörlega nauðsynlegt.

Þegar við fáum fólk til nefnda er það til þess að vinna málin betur, gera málin betri og þegar sérfræðingar og hagsmunaaðilar sem hafa komið til nefndarinnar benda á að það kunni að vera mistök í málinu þá bara hlýði ég því, þá hlusta ég á það. Það er það sem ég er að segja. (ArnbS: Segðu það þá með þeim orðum en ekki að þú hafir haft fyrirvara um málið ...) Ég sagði það aldrei, hv. þingmaður, ég sagði aldrei að ég hefði haft fyrirvara á þessu máli. Ég sagði að ég mundi gera athugasemdir (Gripið fram í.) við það í ljósi þessa. Ég vona að hv. þingmaður sé lýðræðissinni og hafi umburðarlyndi fyrir því að menn geri frekar það sem rétt er en að hanga á einhverju bara af því að þeir skrifuðu upp á það. Svo sjá þeir kannski að það var ekki alveg rétt, menn eiga náttúrlega að fara eftir því sem rétt er.