136. löggjafarþing — 116. fundur,  26. mars 2009.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[01:54]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekki ég sem raða upp dagskrá þingsins. Hafi hv. þingmaður óskað eftir því að ræða frjálsar handfæraveiðar er það ekki mín sök að það er ekki gert hér í kvöld. (GMJ: … formann sjávarútvegsnefndar.) Það vill nú þannig til að hv. formaður sjávarútvegsnefndar hefur heldur ekkert með það að gera hvernig dagskránni er raðað upp í þinginu þannig að hv. þingmaður mun eiga það við forseta þingsins hvernig menn ræða mál hér. Það hefur a.m.k. stundum verið þannig að Frjálslyndi flokkurinn hefur stutt það ríkisstjórnarsamstarf sem núna er í landinu þannig að það mætti búast við því að Frjálslyndi flokkurinn hefði getað fengið eins og eitt mál rætt í þinginu. Ekki ætla ég að koma í veg fyrir það og hef ekki reynt það.

Hæstv. forseti. Ég tek fram að það var algjör samstaða um það í starfshópnum, og mér heyrist almennt vera samstaða um að þeir sem bjóða upp á sérstakar ferðir til fiskveiða með sjóstöng og þar sem umfangið er svo mikið sem raun ber vitni muni þurfa að eiga aflamark til að hafa á móti þeim veiðum. Það er ekkert óeðlilegt við að þeir sem stunda þessa atvinnustarfsemi þurfi að hafa aflamark eða krókaaflamark á þeim bátum sem (Forseti hringir.) stunda slíkar veiðar því að magnið er þó (Forseti hringir.) þetta mikið.