136. löggjafarþing — 116. fundur,  26. mars 2009.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[01:56]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Áframeldi, 500 tonnum úthlutað til áframeldis þar sem er veiddur smár fiskur, settur í kvíar og alinn upp í kjörstærðir til slátrunar. Brottkast á íslenska flotanum, hugsanlegt kvótasvindl með ýmsum hætti, Hafró-afli, upp á 5% af aflamarki skips má vera Hafró-afli, fyrir utan byggðakvóta, línuívilnun og ýmislegt annað sem er innbyggt í fiskveiðistjórnarkerfið. Við erum að tala um tugþúsundir tonna. Þá á raunverulega að íþyngja þessari nýju atvinnugrein, sem lofar góðu, með því að hún þurfi að leigja til sín veiðiheimildir.

Við eigum að láta þessa ferðaþjónustugrein, þennan sprota í ferðaþjónustunni, sprotafyrirtæki sem er að byrja að gera þetta með þessum hætti, afskiptalausa og ekki neyða fyrirtækin til að leigja sér veiðiheimildir.

Svo á hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir náttúrlega að horfa á það sem snýr að mannréttindanefndaráliti Sameinuðu þjóðanna, eins og ég hef margoft komið inn á. Okkur öllum er hollt að horfa á það og skoða það í ljósi þess sem sumir vilja samþykkja og gera að lögum. Við ætlum að ganga lengra í að brjóta mannréttindi en við höfum gert í núverandi kerfi, við erum að setja fleiri inn í þetta bannsetta fiskveiðistjórnarkerfi, þetta kvótakerfi. Það er það sem er verst við þetta frumvarp. Drögum það til baka, gerum það ekki að lögum, þess þarf ekki.