136. löggjafarþing — 116. fundur,  26. mars 2009.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[01:58]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hlýt enn og aftur að benda á að hv. þingmaður var flutningsmaður þessa máls sem felur það í sér að það þarf að leigja til sín aflaheimildir til að stunda þessar veiðar. (GMJ: Vertu ekki að þessum útúrsnúningum alltaf.) Hv. þingmaður, ef hann vildi hlusta á mál mitt án þess að vera með einhvern orðhengilshátt hér í salnum, þannig er þetta nú. Hann flutti þetta mál og að sjálfsögðu er það eðlilegt. Þeir sem stunda þessa atvinnugrein eru sáttir við þetta kerfi. Það er a.m.k. töluvert á sig leggjandi þegar þeir aðilar sem hafa byggt upp atvinnugreinina vilja hafa kerfið þannig, (Gripið fram í.) en þeir vilja hafa ramma utan um starfsemina.

Öll ferðaþjónustan óskar eftir því að fá laga- og regluramma utan um starfsemina sem er mjög vaxandi og mjög fjölbreytileg. Það er nauðsynlegt að utan um þessa starfsemi verði settur reglurammi. Þeir sem stunda þessa atvinnustarfsemi, hvort sem það er blönduð starfsemi eða þar sem markvisst er lögð stund á fiskveiðar, svokölluð magnveiði, kalla eftir regluverki í kringum atvinnugreinina. Samtök ferðaþjónustunnar hafa lagt á það mikla áherslu að utan um þetta verði sett regluverk sem þessi atvinnugrein getur stundað starfsemi sína innan og menn viti þá að hverju þeir ganga og á (Forseti hringir.) hvaða lagagrundvelli þeir standa. (GMJ: Hættu að djóka …)