136. löggjafarþing — 116. fundur,  26. mars 2009.

árlegur vestnorrænn dagur.

221. mál
[02:16]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Ég verð að segja að það sem þessi nefnd okkar undir forustu Karls V. Matthíassonar hefur gert er mjög jákvætt og lofar góðu til framtíðar litið. Aukið samstarf við þessar frændþjóðir okkar á án efa eftir að skila okkur á margan hátt mörgu góðu. Að halda vestnorrænan dag er auðvitað hið besta mál og að halda samráðsfund með sjávarútvegsráðherrum þessara landsstjórna er auðvitað gott mál og mun hugsanlega geta búið til samstarfsverkefni á ýmsum sviðum í framtíðinni.

Oft og tíðum er það þannig að ekki er hægt að sigla til eða frá Grænlandi í lengri tíma en hægt væri að stunda víða fiskveiðar í lögsögu þeirra þrátt fyrir það. Það mætti hugsa sér að vinna aflann í samráði við Grænlendinga og skapa okkur þannig ávinning og þeim líka af því samstarfi. Auðvitað er hugsanlegt að vera í ýmsu samstarfi við Grænlendinga. Við sinnum og hjálpum Grænlendingum nú þegar töluvert þegar kemur að heilbrigðisþjónustu. Ferðamannaiðnaðurinn á án efa eftir að njóta góðs af samstarfi þessara landa og það mun þýða gjaldeyristekjur fyrir allar þjóðirnar ef þær standa saman og vinna saman að því að markaðssetja vestustu löndin í Evrópu, þ.e. Færeyjar, Ísland og Grænland — sem er reyndar kannski ekki í Evrópu. Við eigum möguleika á að nýta ýmislegt sameiginlega.

Fyrir ári síðan kom iðnaðarnefnd grænlenska þingsins í heimsókn til okkar og ég tók þátt í því að taka á móti henni. Fyrirhugað er að byggja álver á Grænlandi og ýmislegt er þar í gangi sem gæti þýtt að þjónusta frá Ísafirði með flugi — og ýmislegt annað varðandi atvinnuuppbyggingu þeirra gæti þýtt ákveðna góða hluti til framtíðar. Eftir því sem við getum unnið meira og betur saman á öllum sviðum getur það skapað bæði atvinnu og gjaldeyristekjur fyrir allar þjóðirnar, sérstaklega í því sem varðar ferðamannaiðnaðinn og eins í sambandi við fiskveiðar og fiskvinnslu og hugsanlega þjónustu á öðrum sviðum og þá er ég að tala um Grænlendinga.

Við eigum líka og höfum átt gott samstarf við Færeyinga og getum sjálfsagt aukið það á mörgum sviðum, sérstaklega í ferðamannaiðnaðinum. Eftir því sem þessar þjóðir standa betur saman að því að vinna að sínum málum, kynningarmálum og öðru, því betra fyrir þær allar. Auðvitað er mjög gott að við getum tekið þátt í rannsóknarverkefni um sjálfbæra nýtingu lifandi náttúruauðlinda og furðulegt raunar að það skuli ekki hafa verið í gangi meira en raun ber vitni. Við erum hér á norðurslóðum og höfum mikla sameiginlega hagsmuni á öllum sviðum. Hugsanlegt er að Grænlendingar fari að vinna olíu eins og hugsanlega við Íslendingar. Færeyingar eru byrjaðir að vinna olíu og segja má að við höfum kannski lært aðeins af þeim varðandi undirbúning á þessum rannsóknarverkefnum og aðeins horft til þeirra hvað þau mál varðar.

Möguleikarnir varðandi samstarf þessara þjóða eru miklir og ég verð að segja að ég held að þetta geti lofað mjög góðu fyrir framtíðina og styð auðvitað þingsályktunartillögurnar og vil enn og aftur þakka Karli V. Matthíassyni, sem hefur verið í forsvari fyrir þessa nefnd, fyrir vel unnin störf.