136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

stjórnarsamstarf eftir kosningar.

[15:15]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir samlíkinguna að stjórnarflokkarnir séu eins og hvað var það? Ástfangnir unglingar, já. Mér finnst það mjög skemmtileg samlíking sérstaklega þegar í hlut eiga flokkar sem við leiðum, ég og hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, sem erum nú einmitt unglingarnir hér í þingreynslu eins og kunnugt er og ætlum okkur langa framtíð enn samanber það sem nýkjörinn formaður Samfylkingarinnar — sem við óskum líka til hamingju — sagði þegar hún rifjaði upp atorku ömmu sinnar.

Það er alveg hárrétt að á fundum beggja flokka sveif sá andi yfir vötnum að samstarfið hefur gengið vel og menn hafa fullan hug á því að halda því áfram. Menn vilja að hér verði áfram (Gripið fram í: Þið hafið ekkert gert.) við völd félagshyggju- og vinstri stjórn og menn vilja að Sjálfstæðisflokkurinn komist ekki aftur til valda. (Gripið fram í.) Það er markmið í sjálfu sér. Það er markmið í sjálfu (Gripið fram í.) sér, stutt af dómi reynslunnar, hv. þingmenn. Það hefur ekki farið mjúkum höndum um íslenskt samfélag að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ráðið því of lengi. (Gripið fram í: ... svara spurningunum.)

Framsóknarflokkurinn gerir að sjálfsögðu upp við sig hvar hann vill vera í þeirri mynd. Ég hef tekið skýrt fram að ég útiloka ekkert í þeim efnum. Ég tek eftir því hvernig forustumenn Framsóknarflokksins tala margir hverjir og yfirleitt þannig að þeir vilja að breyttu breytanda frekar telja sig til hins félagslega hluta litrófsins og sjá sig frekar inni í myndinni þannig en í samstarfi og náðarfaðmi Sjálfstæðisflokksins. Enda þekkir enginn íslenskur stjórnarflokkur betur af biturri reynslu en Framsóknarflokkurinn hvernig það getur farið með flokka að vera þar í vist. (Gripið fram í.)

Varðandi áherslur fyrir kosningarnar verða þær væntanlega ekki tæmdar hér á tveimur mínútum. Flokkarnir tefla fram stefnuskrám sínum. Þannig er það. Þeir eiga að segja hvað þeir ætla að gera og það er eitt sem er mjög mikilvægt. Menn eiga að segja heiðarlega fyrir kosningar hvað þeir telja að þurfi að gera eftir kosningar en ekki reyna að blekkja eins og Sjálfstæðisflokkurinn er að reyna að blekkja, (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) að hægt sé að gera það sem ekki er hægt. (Forseti hringir.)