136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

gjaldeyrishöft og jöklabréf.

[15:22]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðfinnu S. Bjarnadóttur þessa fyrirspurn og get raunar tekið undir margt ef ekki allt í forsendum hennar, þ.e. ég tek undir það að þessi gjaldeyrishöft eru afar óæskileg og geta verið mjög óþægileg fyrir samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja. Það var álitamál síðastliðið haust hvort koma ætti þessum höftum á. Það var auðvitað ekki gert fyrir minn atbeina þá en ég tjáði mig þá um það í fjölmiðlum að ég væri ekki mjög hrifinn af hugmyndinni og hrifning mín hefur ekki aukist síðan.

Hins vegar er það staðreynd að við erum með þessi höft núna og þurfum að vinna okkur út úr þeim og ég held að það sé í grundvallaratriðum hægt. En eitt af því sem torveldar það eru jöklabréfin sem hv. þingmaður minntist á. Reyndar kannski ekki endilega sjálf jöklabréfin heldur innstæður og íslensk verðbréf sem erlendir aðilar hafa eignast í tengslum við þessi jöklabréfaviðskipti.

Því miður liggur ekki nákvæmlega fyrir hver upphæðin er í raun og veru enda er stundum dálítið erfitt að greina á milli innlendra og erlendra aðila því sumir þeirra sem eru á pappírunum erlendir eru kannski grunsamlega íslenskir þegar nánar er að gáð. Þess utan getur vel verið að einhverjir íslenskir aðilar vilji koma sér úr landi með fé sitt þegar höftunum verður aflétt.

En lausnirnar eru í grundvallaratriðum fólgnar í því að skipta þessu óþolinmóða fé sem vill fara úr landi út fyrir þolinmótt fé og Seðlabankinn og fleiri hafa hugsað upp ýmsar leiðir til þess sem þó hefur ekki verið hrint í framkvæmd, m.a. hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ekki verið sáttur við allar þær lausnir sem lagðar hafa verið til. En tímans vegna næ ég ekki (Forseti hringir.) að rekja í smáatriðum hver útfærslan hefði átt að vera.