136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

gjaldeyrishöft og jöklabréf.

[15:24]
Horfa

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta stutta svar sem takmarkast af þeim tíma sem við höfum hér í ræðustól. En mig langar að inna ráðherrann eftir þessum lausnum. Vegna þess að ljóst er að hægt er að leysa þetta vandamál. Í umræðunni hafa aðallega verið tvenns konar lausnir, annars vegar að kaupa þessi jöklabréf og þá, eins og hæstv. ráðherra benti á, þær innstæður og íslensku verðbréf sem búið er að kaupa fyrir þessi jöklabréf og þá hugsanlega vextina af þeim. En að kaupa þau með miklum afslætti.

Hins vegar að fá lífeyrissjóði, íslensk fyrirtæki, fjárfesta og einstaklinga sem eiga eignir erlendis til að taka stöðu með íslensku krónunni. Fara í einhvers konar skipti þannig að eigendur jöklabréfanna fái erlendan gjaldeyri, markaðsbréf eða aðrar auðseljanlegar eignir frá þeim íslensku aðilum sem gætu mögulega tekið stöðu með krónunni.