136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

frumvarp um endurskipulagningu þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

[15:28]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Þetta frumvarp er unnið upp úr tillögum sem alþjóðlegir ráðgjafar, sem fengnir voru til starfa eftir bankahrunið, settu fram og er að alþjóðlega þekktri fyrirmynd og mörg önnur lönd sem lent hafa að einhverju leyti í hliðstæðum aðstæðum hafa farið þessa leið og með henni er mælt af alþjóðlegum ráðgjöfum og innlendum aðilum.

Mikilvægt er að taka það fram að fyrirtækinu er ekki ætlað að eiga og reka þessi fyrirtæki, eins og hv. fyrirspyrjandi sagði, heldur þvert á móti að endurskipuleggja þau og standa að endursölu þeirra og koma þeim út í lífið á nýjan leik. Lögin eru tímabundin og eignaumsýslufélagið skal hafa lokið verkefnum sínum og skal vera slitið innan fimm ára.

Það er skilgreint í greinargerð frumvarpsins hvað átt er við með þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki. Þar er fyrst og fremst verið að tala um fyrirtæki sem eru með svo mikilvæga starfsemi sem tengist öryggishagsmunum, innviðum samfélagsins, almannaþjónustu eða öðru slíku að rík áhersla er til að tryggja að ekki komi rof í þá starfsemi ef þau eru í vanda, og ef það verður niðurstaðan að vænlegra sé að greiða úr málum þeirra í höndum slíks sérhæfðs eignaumsýslufélags heldur en að viðskiptabankarnir, sem jafnframt eru í eigu ríkisins, geri það hjá sér.

Að sjálfsögðu er þar með augljóst að hér er ekki verið að smíða frumvarp utan um einhver tiltekin fyrir fram ákveðin fyrirtæki og þaðan af síður einhvern tiltekinn fjölda eða af tiltekinni stærð heldur ræðst það af aðstæðum hverju sinni. Ætlunin er að útfæra nánar þessar viðmiðunarreglur og frumvarpið gerir ráð fyrir að það sé gert í samráði við Seðlabanka Íslands og aðila vinnumarkaðarins sem gera tillögur um nánari skilgreiningu á þeim viðmiðunum sem þar yrði starfað eftir.