136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

umræða um utanríkismál.

[15:43]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Það veldur vonbrigðum að við skulum ekki nota þennan afmælisdag samningsins um Atlantshafsbandalagið til að ræða (Gripið fram í.) um utanríkismál en forseti hefur upplýst okkur um að skýrsla utanríkisráðherra verði rædd á næstu dögum ásamt öðrum skýrslum. En mig langar til að spyrja: Hyggst hæstv. forseti ekki fjalla um skýrslu Ríkisendurskoðunar?

Ég vil benda hæstv. forseta á það, úr því að þessa dagana virðist ýmislegt fara fram hjá honum, þar á meðal ýmsir stórviðburðir, að í lögskýringargögnum með lögum um Ríkisendurskoðun er sérstaklega tekið fram að þá skýrslu eigi að taka til umræðu á þinginu. Ég heyri að hæstv. forseti virðist ekki ætla að fara eftir þeim skýringum sem koma fram í lögum um Ríkisendurskoðun. Mig langar líka til að spyrja hvort ekki eigi að ræða um störf alþjóðanefnda. Við sem sitjum hér á þingi sitjum í alþjóðanefndum og (Forseti hringir.) höfum frá ýmsu að segja sem við erum að sýsla (Forseti hringir.) á vegum þingsins og á vegum þjóðarinnar … (Forseti hringir.) Get ég fengið að klára hérna? — Víða um heim.