136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

umræða um utanríkismál.

[15:49]
Horfa

Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir að vekja sérstaka athygli á því að í dag skuli vera liðin 60 ár frá því að við stigum það gæfuspor að ganga í Atlantshafsbandalagið sem hefur sýnt og sannað að var eitt það réttasta sem við gátum gert í utanríkismálum og skipuðum okkur þar með í sveit með lýðræðisþjóðum gegn okinu, gegn ófrelsinu. Það hefði verið vel við hæfi að þessa dags hefði verið minnst sérstaklega, a.m.k. að hæstv. forseti Alþingis gerði sér grein fyrir hvað gerðist á þessum degi fyrir 60 árum.

Út af ummælum hv. þm. Þuríðar Backman, ég hélt fyrst að það mundi enginn verða til andsvara og þingheimur ætlaði að samsinna með hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur um að það hefði verið ótvírætt gæfuspor að ganga í Atlantshafsbandalagið en það var ein rödd sem sagði: Nei, við höfum ekki enn þá fundið út úr því hvers konar bandalag Atlantshafsbandalagið er. En við höfum fundið út (Forseti hringir.) úr því, hin sögulega reynsla hefur sýnt fram á að það var hárrétt spor sem við stigum (Forseti hringir.) og það var það eina sem við áttum að gera, að skipa (Forseti hringir.) okkur í sveit með frelsinu gegn helsinu.