136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

umræða um utanríkismál.

[15:54]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil koma hér upp til að taka undir með þeim félögum mínum sem hafa talað á undan mér, að í dag er svo sannarlega merkisdagur og mér finnst í rauninni með ólíkindum að hér skuli enn þá finnast fólk sem dregur í efa að aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu hafi verið okkur Íslendingum til gæfu. Mér finnst það hreint með ólíkindum og hvet fólk til að fara aðeins yfir sögubækurnar sínar með opnum huga.

Ég kem hér upp ekki síst sem formaður Íslandsdeildar NATO-þingsins og ég vil hvetja til þess að við tökum fyrir skýrslur alþjóðanefndanna og ég tel mjög mikilvægt í ljósi þessarar umræðu að við gerum það. Mér sýnist ekki vanþörf á því að fara yfir það hér á hinu háa Alþingi hvaða verkefnum er verið að sinna á vettvangi Atlantshafsbandalagsins, hvernig það kemur okkur Íslendingum til góða að vera þátttakendur í því samstarfi og hvernig það tengist hagsmunum Íslands beint að vera aðili að því ágæta friðarbandalagi, eins og hefur komið fram.