136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

umræða um utanríkismál.

[15:58]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er svolítið sérkennilegt hversu viðskotaillir þingmenn stjórnarliðsins verða þegar þeir eru minntir á þá einföldu staðreynd að það beri að ræða þessar skýrslur sem hér hafa verið gerðar að umtalsefni. Hvað er það sem kemur svona illa við kaunin á hv. þingmönnum? Er það sú staðreynd að þeim ber að ræða skýrslu um utanríkismál, skýrslu Ríkisendurskoðunar, skýrslu umboðsmanns Alþingis? Er þetta eitthvert dæmi um málþóf eins og hv. þm. Árni Páll Árnason, formaður utanríkismálanefndar, sagði áðan? Hann lét í veðri vaka að við værum að reyna að halda hér uppi málþófi af því að við færum fram á það við hæstv. forseta, sem hefur verið að móast við út af þessu máli, að staðið yrði við það verkefni sem Alþingi ber að sinna. Er það Alþingi sem ætlar að ganga fram fyrir skjöldu í því að sinna ekki lögbundnu hlutverki sínu?

Þetta er alveg stórfurðulegt og það er undarlegt að hvenær sem komið er að því að ræða svona mál bregðast hv. þingmenn stjórnarliðsins svona illa við. Það er auðvitað þannig að okkur ber að ræða þessi mál og við eigum að finna okkur tíma og ég tel að hæstv. forseti ætti núna eftir þessa umræðu, (Gripið fram í.) þegar það liggur fyrir, virðulegi forseti, að það er vilji þingmanna úr öllum stjórnmálaflokkunum nema helst kannski í Samfylkingunni (Forseti hringir.) að ræða þessi mál, að hæstv. forseti setjist niður með formönnum þingflokka í forsætisnefnd og ákveði tafarlaust (Forseti hringir.) að ræða þessi mál og finna til þess eðlilegan tíma, t.d. á morgun.