136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

umræða um utanríkismál.

[16:06]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Þetta eru undarlegar umræður. En ég vil óska Atlantshafsbandalaginu til hamingju með afmælið. Ég lýsi yfir vonbrigðum með sjálfstæðismenn að þeir skuli standa í einhvers konar málþófi enn eina ferðina þegar þeir hafa komið hér trekk í trekk og talað um að mikilvægt sé að ræða hér efnahagsmál og slæma stöðu heimilanna.

En mig langar til að vekja athygli á athugasemd sem kom frá hv. þm. Birgi Ármannssyni þar sem hann spurði virðulegan forseta um það hvernig dagskrá Alþingis væri næstu viku. Þá vil ég benda á það að forseti Alþingis stöðvaði hér umræðuna einn dag vegna þess að eitt einstakt mál tafðist um tvo daga í þinginu. Ég vænti þess að hæstv. forseti svari þessari spurningu og skýri fyrir okkur hvernig dagskráin verður næstu daga.