136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

umræða um utanríkismál.

[16:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég vona að þetta innlegg mitt flokkist ekki sem málþóf. En ég var að koma af mjög öflugum landsfundi og þar hitti ég fólk utan af landi sem spurði hvenær þingmenn kæmu heim í hérað til að ræða um komandi kosningar. (Gripið fram í.) Það má vel vera að þingmenn hér á Reykjavíkursvæðinu þurfi ekki eins langan tíma. En í stórum kjördæmum úti á landi er það mjög brýn nauðsyn og eiginlega ekki forsvaranlegt að menn hafi ekki meira en þrjár vikur til þess að undirbúa kosningar.

Svo vil ég benda á það að Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu ætlar að kanna kosningar á Íslandi, hafa kosningaeftirlit. Ég er hræddur um að það þyki ekki góð lenska að þingmenn hafi ekki tíma til að kynna kjósendum sínum það sem þeir eiga að kjósa um. Ég hugsa að það sé ekki nægilega gott fyrir lýðræðið ef menn ætla að halda þing alveg fram á kosningadag.