136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

ábyrgðarmenn.

125. mál
[16:49]
Horfa

Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Ég lýsi yfir mikilli ánægju með það hversu mikil samstaða hefur náðst í þinginu um að fylgja þessu máli um ábyrgðarmenn fram, svo sem komið hefur í ljós og kom í ljós við atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. Ég ítreka þakkir mínar til 1. flutningsmanns frumvarpsins, hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar, fyrir þá þrautseigju sem ítrekað hefur komið fram að hann hefur sýnt varðandi þetta mál.

Þetta mál hefur verið eitt af helstu baráttumálum varðandi lagasetningu af hálfu Neytendasamtakanna þar sem áhersla var lögð á það hve miklu máli skiptir að koma því út úr íslensku lánakerfi sem við höfum haft, að hér væri miðað við að alltaf væru kallaðir til ábyrgðarmenn í staðinn fyrir að gera eins og gerist með siðuðum þjóðum þar sem bankaviðskipti eru þróaðri en hér hefur verið, það sé miðað við líklega greiðslugetu sjálfs lántakandans og hvort sú fjárfesting sem hann ræðst í sé eðlileg.

Það ábyrgðarmannakerfi sem við höfum búið okkur til í íslenskum fjármálaheimi hefur m.a. stuðlað að óábyrgri afstöðu íslenskra lánveitenda þar sem þeir hafa horft til þess að þess vegna afi og amma, eins og hv. þm. Pétur Blöndal lýsti svo sérstaklega í frábærri ræðu sem hann flutti hér við 2. umr., gætu þurft að greiða vegna óábyrgra fjárfestinga lántakandans. Við eigum ekki að miða við slíkt og ekki hafa lánakerfið þannig.

Við erum í sjálfu sér ekki að afnema ábyrgðarmannakerfið eins og kom fram í ræðu áðan. Við erum að setja ákveðnar reglur um samskipti neytandans og fjármálastofnunar. Á sínum tíma tókst samkomulag með Neytendasamtökunum og sumum fjármálastofnunum um að koma á ákveðnum vísireglum hvað varðar ábyrgðarmenn. Það var gott svo langt sem það náði. Ýmsar fjármálastofnanir hafa hins vegar verið utan þess kerfis, m.a. ýmsir aðilar sem hafa lánað bílalán þannig að samkomulagið sem slíkt var gott svo langt sem það náði en var hins vegar ekki fullnægjandi. Þar af leiðandi var brýnt að setja löggjöf um málið til að koma eðlilegum viðmiðunum inn í íslenskt fjármálalíf hvað þetta varðar.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, virðulegi forseti, en vildi ekki láta hjá líða við 3. umr. málsins að ítreka stuðning minn við þetta frumvarp og tel að með því að samþykkja það sé náð mjög merkum áfanga til þess að bæta stöðu neytenda á Íslandi.