136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

30. mál
[16:57]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum. Hv. félags- og tryggingamálanefnd hefur fjallað um málið og fengið um það umsagnir.

Í tillögunni er kveðið á um að Alþingi skuli álykta að félagsmálaráðherra feli Jafnréttisstofu að hrinda af stað aðgerðum í því skyni að efla hlut kvenna í sveitarstjórnum. Mikið hefur verið rætt um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum á undanförnum missirum og árum. Sveitarstjórnarkosningar verða haldnar vorið 2010, eins og allir vita, og telur nefndin rétt að leggja í aðgerðir fyrir þær, enda hefur hlutur kvenna í sveitarstjórnum aukist hægt á umliðnum árum.

Nefndin hefur kynnt sér sjónarmið umsagnaraðila og í stuttu máli sagt leggur nefndin til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Flutningsmenn hennar eru þingmenn úr öllum flokkum, hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, 1. flutningsmaður, og undir nefndarálitið rita auk þeirrar sem hér stendur hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Þuríður Backman, Atli Gíslason, Helga Sigrún Harðardóttir og Kristinn H. Gunnarsson.

Fjarverandi við afgreiðslu málsins úr félags- og tryggingamálanefnd voru hv. þm. Ármann Kr. Ólafsson, Árni Johnsen og Ragnheiður Ríkharðsdóttir.