136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

30. mál
[17:17]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur, formanni félags- og tryggingamálanefndar, fyrir framsögu með þessu nefndaráliti og tek undir það sem hv. þingmaður sagði áðan, það að auka hlut kvenna í stjórnmálum er sífelld barátta og ekkert hefst án hennar. Ef menn hætta baráttunni virðist hluturinn minnka aftur, við höfum upplifað og séð það svart á hvítu í þinginu að þegar umræðan og baráttan var ekki lengur eins sterk og hún var á sínum tíma vegna verkefnis sem við erum einmitt núna að ræða varðandi sveitarstjórnarstigið minnkaði aftur hluturinn, því miður. Þetta er barátta og umræða sem þarf alltaf að vera í gangi.

Því miður hafa karlmenn verið of mikið fjarverandi í þessari umræðu. Það er bara þannig, því miður, og kannski er það af því að einhverjum þeirra finnst umræðan vera ógn við eigin stöðu. Allir vita að talsverð valdabarátta hefur verið milli kynja innan flokka en auðvitað fer líka fram valdabarátta milli kvenna innbyrðis og karla innbyrðis. Konur hafa hins vegar því miður oft beðið lægri hlut í þeirri baráttu.

Eftir að Kvennalistinn kom til skipti hann verulegu máli. Hann hafði þau áhrif að flokkarnir urðu sjálfir ansi hræddir um að þarna væri komið eitthvert afl sem mundi sópa til sín konum þannig að með tilkomu Kvennalistans vöknuðu flokkarnir svolítið til lífsins í þessu og konur fengu framgang, sem betur fer, innan allra flokka að einhverju leyti. Kvennalistinn var snjallt baráttutæki á sínum tíma. (Gripið fram í.)

Neyðarstjórn kvenna íhugaði að fara í framboð fyrir alþingiskosningarnar í vor. Þær tóku þátt í búsáhaldabyltingunni hérna fyrir utan og voru brattar með að fara í framboð en ákváðu síðan að beita sér innan flokkanna. Ég held að það hafi verið rétt baráttuaðferð hjá þeim og nú er að sjá hver hlutur kvenna verður í vor þegar talið verður upp úr kjörkössunum á Alþingi.

Sú er hér stendur flutti þingsályktunartillögu um sambærilegt mál á sínum tíma um að fara í aðgerðir til að auka hlut kvenna á þinginu. Sú tillaga var samþykkt. Það var mjög mikið gleðiefni því að það er ekki oft sem almennir þingmenn fái samþykktar tillögur yfirleitt. Það verkefni skilaði mjög miklum árangri, hlutur kvenna jókst meðan það verkefni stóð yfir. Sú er hér stendur var fyrsti formaður nefndar sem stýrði því verkefni. Hlutur kvenna jókst um 10 prósentustig, hann fór úr 25,4% upp í tæp 35%. Síðan lauk þessu átaksverkefni og hlutur kvenna á þinginu hrapaði eftir það um 5 prósentustig. Það varð bakslag og hlutur kvenna fór niður í rúm 30%. Í síðustu alþingiskosningum, 2007, jókst hann um 1,5 prósentustig þannig að við erum enn þá talsvert frá því að ná þeim árangri sem náðist eftir átaksverkefnið. Það er brýnt að svona verkefni séu alltaf í gangi, bæði sem snúa að sveitarstjórnarstiginu og þinginu. Sú tillaga sem við erum að fjalla um núna snýr sérstaklega að sveitarstjórnunum og það er vegna þess að það eru næstu kosningar sem átti að halda. Sú er hér stendur taldi að það yrðu næstu kosningar í röðinni, þetta mál var flutt fyrir nokkru síðan og þá var ekki ljóst að kosið yrði svo snemma sem 25. apríl árið 2009. Það kom á óvart.

Varðandi það sem kom fram hjá hv. þm. Jóni Magnússyni áðan þegar hann sagði að valdið væri tekið úr höndum kjósenda lít ég alls ekki svo á að við séum að því. Það er verið að reyna að hafa áhrif á kjósendur með upplýstri umræðu og átaki þannig að kjósendur átti sig betur á því hvað það er mikilvægt að konur og karlar starfi til jafns í pólitík, bæði á sveitarstjórnarstigi og auðvitað í þinginu líka.

Hv. þingmaður fann líka að því að ekki væri verið að lýsa beinum aðgerðum í tillögunni sjálfri. Í greinargerðinni er vísað í aðgerðir sem fyrri nefnd fór í og ég held að mjög margir muni eftir þeim. Það er handhægt að skoða hvað sú nefnd gerði og það er hægt að nýta margt áfram úr þeirri vinnu. Það er hægt að fara í umræðufundi um allt land eins og gert var. Það er hægt að fara í umræðu um þetta í sjónvarpi, eins og gert var þá, og það er líka hægt að fara í auglýsingar. Það var nefnt hérna. Það var gert þá. Hér voru miklar auglýsingar þar sem forustumenn flokkanna tjáðu sig um hvað það væri mikilvægt að konur væru til jafns við karla í stjórnmálum. Þetta er allt til.

Við höfum víða séð árangur af auknum hlut kvenna í stjórnmálum og ég vil nefna að t.d. í prófkjörunum sem fóru fram um daginn kom margt athyglisvert í ljós. Sums staðar náðu konur ekki þeim árangri sem þær stefndu að og urðu að lúta í lægra haldi fyrir körlum í prófkjörunum. Það var t.d. eftirtektarvert að engin kona sóttist eftir því að leiða lista í Reykjavíkurkjördæmunum hjá Sjálfstæðisflokknum, því miður. Þar varð kona í fjórða sæti ef ég man rétt.

Hins vegar vil ég nefna að í mínum flokki, Framsóknarflokki, var prófkjör í Suðvesturkjördæmi og þar urðu fimm konur í efstu fimm sætunum. Síðan komu fimm karlar í þeim fimm sætum sem voru þar á eftir. 10 tóku þátt í prófkjörinu. Við vorum með kynjakvóta sem var aðallega hugsaður til að tryggja hlut kvenna af því að konur eru í minni hluta í þinginu. Kynjakvótinn kom þó þannig út miðað við hvernig honum var beitt hjá okkur að tvær konur færðust niður fyrir tvo karla. Þetta voru Una María Óskarsdóttir og Bryndís Bjarnason sem hafa báðar verið í forustu LFK og miklir talsmenn jafnréttis. Það var svolítið sérstakt að upplifa það að þessar hörkustjórnmálakonur færðust niður listann fyrir karla. Við ákváðum að beita kynjakvótanum í báðar áttir og þess vegna fór það svona.

Ég tel mjög mikilvægt, virðulegur forseti, að við samþykkjum þessa þingsályktunartillögu sem fyrst og ég þakka félagsmálanefnd fyrir sköruglega vinnu. Hún stóð vel að verki, skoðaði málið vel og lagði síðan til að við afgreiddum það. Það er alveg ljóst að við verðum að fara í átaksverkefni til að tryggja að hlutur kvenna í sveitarstjórnum aukist í næstu kosningum en minnki alls ekki. Hann á að aukast. Núna eru fulltrúar í sveitarstjórnum 65% karlar og það er eðlilegt að þetta kynjahlutfall jafnist betur út.