136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

30. mál
[17:58]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að fagna því að þetta mál er komið fram til afgreiðslu. Ég er einn af flutningsmönnum þessa máls og var jafnframt flutningsmaður á máli því sem hefur verið tíundað í umræðunni og sagt að hafi verið til mikils gagns frá 1998 um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum. Það hefur verið vitnað mjög til starfs þeirrar þverpólitísku nefndar sem þá var sett á stofn og tók satt að segja verkefni sitt mjög alvarlega. Sú nefnd fór í heilmörg verkefni og sjálf átti ég sæti í þeirri nefnd allan tímann. Eins og kom fram í máli hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur var hún í upphafi formaður nefndarinnar og ég held að hún hafi sem formaður lagt mjög góðan grunn að starfi þeirrar nefndar og það var mjög ánægjulegt að taka þátt í því. Við fórum í fundaferðir og meðal þess sem við gerðum á þeim tíma var að fara í viðræður við ritstjóra blaða og stjórnendur ljósvakamiðla.

Það kom fram í starfi þeirrar nefndar að hlutur kvenna og hvernig þær eru kynntar í fjölmiðlum hefur líka áhrif. Það kom fram þegar við ræddum við ritstjóra blaðanna og fórum yfir þetta mál mjög vandlega með þeim að þeir höfðu ekkert endilega lagt mjög mikla vinnu í að skoða hver ábyrgð þeirra var í þessu máli. Eftir að búið var að fara yfir það með t.d. ritstjóra Morgunblaðsins, Styrmi Gunnarssyni, mátti sjá verulega breytingu á framsetningu Morgunblaðsins í umræðum um jafnréttismál, að konur sem tóku þátt í stjórnmálum voru kallaðar til til þess að segja álit sitt á málum, þannig að við töldum a.m.k. á þeim tíma að þetta hefði haft veruleg áhrif á það hvernig fjölmiðlar tóku á jafnréttismálum, þátttöku kvenna í stjórnmálum og hvernig hlutur kvenna var almennt dreginn fram.

Í þessari tillögu, hæstv. forseti, er lagt til að Jafnréttisstofa muni gera þetta að þessu sinni, muni sjá um að hrinda af stað aðgerðum til að efla hlut kvenna í sveitarstjórnum. Ég tel rétt að fá Jafnréttisstofu í þetta verkefni. Kannski má spyrja hvort það eigi ekki að vera viðvarandi verkefni Jafnréttisstofu að gera þetta. Það má líta svo á. Í umsögn Jafnréttisstofu um þetta mál segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Lög nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, hafa það að markmiði að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins, sjá 1. mgr. 1. gr. Enn fremur segir í sömu mgr. að allir einstaklingar skuli eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni. Þessu markmiði á meðal annars að ná með því að, eins og fram kemur í b. og c. lið 1. gr., vinna að jöfnum áhrifum kvenna og karla í samfélaginu og bæta sérstaklega stöðu kvenna og auka möguleika þeirra í samfélaginu.“

Síðan vitnar Jafnréttisstofa, hæstv. forseti, í þingsályktunartillöguna og segir að hlutur kvenna í sveitarstjórnum hafi aukist fremur hægt eins og kemur fram í greinargerðinni og segir svo:

„Eitt af því sem skiptir miklu máli til að ná ofangreindum markmiðum jafnréttislaga er að konur komi að því til jafns á við karla að taka ákvarðanir um sitt nærumhverfi, ákveða hvernig þjónustu, t.d. félagsþjónustu, í sveitarfélögum skuli háttað og hvernig fjármagn sveitarfélags er notað. Ljóst er því að aðgerða er þörf til að bæta stöðu kvenna á sveitarstjórnarstiginu.“

Hæstv. forseti. Það er sannarlega rétt að það er mikil nauðsyn á því. Jafnréttisstofa bendir jafnframt á það í umsögn sinni að hún sé tilbúin til að taka að sér þetta verkefni, enda sé málefnið brýnt en segir svo jafnframt:

„Ljóst er þó að til að svo geti orðið þarf að auka fjárveitingar til Jafnréttisstofu.“

Ég hefði því viljað spyrja ef formaður nefndarinnar væri einhvers staðar nærlendis hvort fram hefði farið eitthvert fjárhagslegt mat á því hvað þessar aðgerðir muni kosta. Það kemur ekki fram í umsögn Jafnréttisstofu hvað hún telur þurfa mikið fjármagn til að hleypa þessum aðgerðum af stað. Það kemur jafnframt fram í umsögn Viðskiptaráðs að það telur að á þessum tíma sé ekki rétt að ráðast í slíkar aðgerðir þar sem nú þurfi að öðru leyti að ráðast í mikinn niðurskurð. Það segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Að auki er almennt vafasamt að ætla að auka opinber útgjöld á þessum afar erfiðu tímum í íslensku efnahagslífi þó þau séu vissulega minni háttar í þessu tilfelli. Margt smátt gerir hins vegar eitt stórt og nú stendur ríkissjóður frammi fyrir því að þurfa að skera niður útgjöld um 40 milljarða kr. eða auka skattheimtu sem því nemur eða um 2,4% af landsframleiðslu. Aukin skattheimta er ekki valkostur að mati Viðskiptaráðs.

Viðskiptaráð telur eðlilegast og líklegast til árangurs að stjórnmálaflokkarnir taki það upp með sjálfum sér að útfæra og framkvæma hugmyndir þær sem þverpólitíska nefndin lagði til á sínum tíma og fjallað er um í tillögunni. Ef sveitarstjórnir og Alþingi eiga að endurspegla ákveðinn þverskurð mannlífsins, t.a.m. hvað kynjahlutföll varðar, þá liggur beinast við að fulltrúar þeirra sem fylla sæti sveitarstjórna og Alþingis reyni eftir fremsta megni að tryggja slíkan þverskurð.“

Hæstv. forseti. Af þessum sökum leggur Viðskiptaráð til að tillagan nái ekki fram að ganga en ég ítreka að það væri áhugavert að fá að vita hversu gaumgæfilega nefndin hefur farið yfir málið og þann kostnað sem af því hlýst. Ég veit að starf fyrri þverpólitísku nefndarinnar kostaði nokkurt fé, þótt það hafi ekki verið mjög mikið, en það er nauðsynlegt á þessum tímum að gera sér fulla grein fyrir slíku.

Ég vil jafnframt, hæstv. forseti, vekja athygli á umsögn Alþýðusambands Íslands. Alþýðusambandið fagnar tillögunni sem fulltrúar allra flokka á Alþingi flytja en þar segir, með leyfi forseta:

„Eins og fram kemur í greinargerð er fylgir tillögunni þá hefur hlutur kvenna í sveitarstjórnum aukist mjög hægt undanfarinn áratug. Því er mikilvægt að beita markvissum aðgerðum til að bæta hlut kvenna í sveitarstjórnum í aðdraganda næstu sveitarstjórnarkosninga 2010.“

Kannski hefði verið áhugavert að heyra frá formanni nefndarinnar hvort það hefði verið athugað sérstaklega hvað ASÍ á við þarna. Svo segir, með leyfi forseta:

„ASÍ telur Jafnréttisstofu réttan aðila til að veita slíkum aðgerðum forustu, en bendir á að nauðsynlegt er að Jafnréttisstofa kalli á þá aðila sem sinna jafnréttismálum á faglegum forsendum og aðra áhugahópa um jafnrétti kvenna og karla.“

Ég átta mig ekki alveg á því hvort þetta er eitthvert vantraust frá Alþýðusambandinu gagnvart Jafnréttisstofu. Ég trúi því þó varla. Hafi þetta komið fram við meðferð málsins þegar Alþýðusambandið kom til viðræðu við nefndina hefur það væntanlega verið skýrt fyrir nefndinni hvað Alþýðusambandið á við í þessu tilfelli.

Af því að Kvenréttindafélagið er með svo fallega og góða umsögn vildi ég aðeins vitna í hana líka. Kvenréttindafélagið segir varðandi stuðning við málið að það hafi haldið málþing undir yfirskriftinni Uppröðun á framboðslista – ábyrgð stjórnmálaflokkanna og að í lok málþingsins hafi verið samþykkt ályktun þar sem segir, með leyfi forseta:

„„Það var samróma álit málþingsins að hvetja stjórnmálaflokkana til að hafa kynjajafnrétti að leiðarljósi við uppröðun á framboðslista fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar árið 2010. Einnig að hvetja Alþingi sérstaklega til að bregðast við því misræmi sem gætir í hlutfalli kynjanna á framboðslistum almennt með því að taka til umfjöllunar þingsályktunartillögu Sivjar Friðleifsdóttur o.fl. um aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum, sem og önnur sambærileg þingmál sem geta leitt til aukinnar þátttöku kvenna í stjórnmálum.“

Eitt af markmiðum KRFÍ er að berjast fyrir því að konur fái aukin áhrif í samfélaginu. Ójöfn staða kynjanna endurspeglast m.a. í því að misræmis gætir í þeim fjölda karla og kvenna sem sitja í sveitarstjórnum. KRFÍ fagnar því sérstaklega að komin er fram þingsályktunartillaga sem tekur mið af þessu og er ætlað að leita leiða til að gera konum í auknum mæli kleift að koma að sveitarstjórnmálum.“

Þetta segir í umsögn KRFÍ og við getum verið sammála um það. Það er þó einn ókostur í þessari stöðu sem margir stjórnmálaflokkar hafa fjallað um, prófkjörin. Framgangur kvenna hefur ekki verið nægilega góður eins og allir hafa þó að markmiði að verði með prófkjörunum. Það er eins og að alltaf verði eitthvert þak. Við töluðum á árum áður um glerþakið og það má segja að við höfum sjaldan komist upp fyrir það. Það var kannski 1999 og 2003 í alþingiskosningum en almennt hefur framgangur kvenna ekki verið nægilega góður. Ég hefði t.d. viljað sjá í prófkjöri Samfylkingar í Suðvesturkjördæmi að hv. formaður nefndarinnar hefði náð betri framgangi í prófkjörinu þar, mætur þingmaður sem hefur látið margt gott af sér leiða á Alþingi. Það hefði verið gott að sjá framgang hennar meiri. Kannski má segja að þeir flokksmenn sem taka þátt í prófkjörum hugi ekki nægilega vel að þessu.

Við höfum tekið þessa umræðu í kringum frumvarpið um persónukjör. Stjórnarflokkarnir hafa lagt fram frumvarp um persónukjör og í því máli er heldur ekki nægilega gert ráð fyrir því að taka þurfi tillit til jafnréttissjónarmiða. Ég tel, eins og við sjálfstæðismenn höfum gjarnan talað fyrir, kannski eina ráðið að vinna að hugarfarsbreytingu. Ég er þess vegna eindreginn stuðningsmaður þessara aðgerða sem á að ráðast í og að við beinum því til Jafnréttisstofu að gera það. Ég vitna jafnframt í umsögn Landssambands sjálfstæðiskvenna sem styður þetta eindregið. Þar segir, með leyfi forseta:

„Landssamband sjálfstæðiskvenna fagnar tillögunni og telur mikilvægt að beitt verði markvissum aðgerðum til að bæta hlut kvenna í sveitarstjórnum. Landssamband sjálfstæðiskvenna er sammála því sem kemur fram í tillögunni að Jafnréttisstofa ætti að annast slíkar aðgerðir.“

Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir er komin, formaður félags- og trygginganefndar, og þess vegna vil ég endurtaka þá spurningu sem ég bar fram í upphafi máls míns um það hvort nefndin hafi hugað að kostnaði við málið. Hugsanlega kom það fram þegar nefndin kallaði fyrir sig gesti við vinnslu málsins en svo ég endurtaki það bara kemur fram í umsögn Jafnréttisstofu að það þurfi auknar fjárveitingar til Jafnréttisstofu. Þess vegna hlýt ég að spyrja hvort gert hafi verið ráð fyrir því og hvort fyrir liggi einhverjir útreikningar á því eða hugsanlega hugmyndir um fjárframlög til Jafnréttisstofu, hversu mikið þessar aðgerðir muni kosta, þær aðgerðir sem við munum vissulega stofna til með samþykkt þessa frumvarps. Við erum að leggja á Jafnréttisstofu að taka að sér aukin verkefni og þá er nauðsynlegt að við höfum einhverja hugmynd um hvað það kostar. Reyndar er gert ráð fyrir því í þingsköpum að eitthvert fjárhagslegt mat liggi fyrir á því hvað þingmál kosti við samþykkt á Alþingi en það væri áhugavert að fá að heyra þetta.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu meira. Ég tel þetta áhugavert og mikilsvert mál en á þeim tímum sem við lifum núna, við væntanlegan niðurskurð í ríkisfjármálum þó að við höfum ekki fengið tillögur ríkisstjórnarinnar þar um, er mikilvægt að huga að því hvað svona aukin verkefni muni kosta.