136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

30. mál
[18:19]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki alveg ánægð með svarið þó að við séum sammála um mikilvægi þessa verkefnis, og ég ætla síst að draga úr því að það er mjög mikilvægt að jafna stöðu kynjanna í sveitarstjórnum og hafa áhrif á að menn leggi töluvert á sig til þess og stuðli að hugarfarsbreytingu sem svona átak snýr aðallega að. Það snýr að því að vekja athygli á því hversu döpur staða þetta er í sveitarstjórnum, en þetta kostar peninga. Við eigum að sýna þá ábyrgð, ekki síst á þessum tímum, og kanna hvað svona samþykktir kosta, annaðhvort að koma með tillögur um niðurskurð á móti eða að benda á einhvers konar leiðir til þess að fjármagna þetta átak. Ég held að það sé afar mikilvægt.

Ég skil það sem svo að ekki hafi verið farið í rannsókn á því hvað verkefnið kostaði eða að afgreiðslu nefndarinnar fylgdu einhverjar tillögur um hvað það megi kosta. Ég hlýt að spyrja hv. formann að því hvort ekki hafi verið kallaðir til gestir til þess að fara yfir þessar umsagnir og skýra þær betur en þar kemur fram álit margra á málinu. Það hefði skýrt það betur og kemur betur fram í nefndarálitinu hvað liggur þarna að baki. Til dæmis er ekki minnst á fjárhagsþáttinn (Forseti hringir.) í nefndarálitinu.