136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[20:17]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Mig langar til að leggja nokkur orð í belg út af þessu máli, frumvarpi til laga um breyting á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Ástæðan er einfaldlega sú að ég hef áhuga á málinu og kvikmyndaiðnaðinum á Íslandi, ég þekki hann ágætlega og hef fylgst með honum. Ég tók þátt í vinnu við að breyta þessum lögum á árinu 2006 sem hv. þm. Katrín Júlíusdóttir, framsögumaður nefndarálits, gerði grein fyrir.

Ég þarf varla að taka fram að ég er ánægður með það sem kemur fram í frumvarpinu. Það gleður mig að menn ætli sér að hækka endurgreiðsluhlutfall vegna kvikmyndagerðar úr 14% í 20%. Með því er verið að gera Ísland samkeppnishæfara varðandi kvikmyndaframleiðslu í samkeppni við önnur lönd. Ég held að það sé mikið heillaskref vegna þess að ljóst er að menn þurfa að leita allra leiða til að reyna að styrkja og efla kvikmyndaiðnaðinn á Íslandi. Það er sá iðnaður sem ég held að eigi mikinn möguleika á að vaxa og dafna.

Gríðarleg gróska hefur verið á þessu sviði á undanförnum árum hvort sem er í kvikmyndagerð, auglýsingagerð, þáttagerð eða öðru slíku. Íslenskir kvikmyndagerðarmenn og allt það fagfólk sem kemur að vinnslu auglýsinga, kvikmynda eða annars myndefnis er að hasla sér völl sem hið færasta fólk í heimi á því sviði. Ég held að það sé alveg óhætt að fullyrða. Við höfum séð að íslenskir aðilar hafa verið að vinna til verðlauna eða tilnefndir til verðlauna á alþjóðlegum vettvangi vegna vinnu sinnar í kvikmyndageiranum. Á Íslandi er mikil þekking og mikill mannauður sem við þurfum að virkja og koma með úrræði til að reyna að hvetja erlenda aðila til að koma með fleiri verkefni hingað til Íslands. Ég er þeirrar skoðunar að á sínum tíma þegar farið var út í þær ráðstafanir hafi menn stigið heillaskref og núna er verið að ganga enn lengra en gert var á sínum tíma.

Segja má að hér sé á ferðinni skattaleg samkeppni á milli landa. Fram kom hjá hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur að endurgreiðsluhlutfallið á Írlandi væri 28%. Við erum í þessu máli að hækka það úr 14% í 20% og taka þá virkan þátt í samkeppninni við Íra. Ég hef alltaf verið mikill talsmaður skattalegrar samkeppni á milli landa. Hún er gríðarlega mikilvæg og geysilega mikilvægt að lönd standi vel skattalega séð ef þau vilja styrkja og efla hagkerfi sitt og þá starfsemi sem fram fer í löndunum.

Hins vegar hefur það verið þannig innan Evrópusambandsins, svo ég blandi því nú aðeins inn í málið, að stofnanir Evrópusambandsins hafa alltaf verið á móti þessari skattalegu samkeppni milli landa. Það kom t.d. fram í tilmælum sem samþykkt voru á fundi í Nice einhvern tímann í upphafi þessara aldar að Evrópusambandið vildi berjast gegn skattalegri samkeppni og samræma allar skattareglur innan Evrópusambandsins þannig að skattprósenta á öllum sviðum væri sú sama.

Ég er á móti slíkri miðstýringu og ég tel að lönd eigi að keppa um verkefni sín á milli með því að bjóða góð kjör, þar á meðal á þessu sviði. Ég fagna því að íslensk stjórnvöld taki þátt í þeirri skattasamkeppni á milli landa og vilji leggja sitt af mörkum til að vera framarlega í flokki á þessu sviði.

Það er mikið til þess að vinna, herra forseti, að sú breyting sem hér er lögð til nái tilgangi sínum og vonandi mun hún hafa jákvæð áhrif á kvikmyndaiðnaðinn. Það eru geysilega mörg störf í húfi. Margir starfa að kvikmynda-, auglýsinga- og þáttagerð á Íslandi. Segja má að í rauninni komi afar margar stéttir manna að gerð kvikmynda, allt frá því að vera mjög sérhæfðir tækni- og tökumenn til þess að vera iðnaðarmenn, t.d. smiðir sem vinna að leikmyndagerð, og allt þar á milli. Það eru því gríðarlega mörg störf sem hér eru undir. Ef þessi breyting mun hafa þau áhrif sem að er stefnt og laða hingað til lands erlenda aðila til að framleiða og taka upp kvikmyndir á Íslandi, þá felast í því gríðarlega mikil verðmæti fyrir fólkið í landinu.

Það eru einmitt svona úrræði sem við sjálfstæðismenn höfum verið að hvetja til að gripið verði til, þ.e. að ráðast í lagasetningu sem hefur það að markmiði að skapa störf í landinu. Þegar slík mál koma fram stendur ekki á okkur að styðja þau.

Hvað þetta svið varðar held ég að ég leyfi mér að segja að kvikmyndagerðarmenn eiga um þessar mundir undir högg að sækja. Það þarf svo sem ekki að hafa langt mál um að aðgangur að fjármagni, sama í hvaða geira það er, er ákaflega takmarkaður um þessar mundir. Það kemur niður á kvikmyndaframleiðslunni. Kvikmyndaframleiðsla er mjög áhættusöm og þeir sem þó hafa úr einhverjum fjármunum að spila til að setja í verkefni setja ekki fjárfestingu í kvikmyndagerð efst á sinn lista. Ég held að það megi fullyrða.

Ég þekki það úr störfum mínum í starfshópi, sem ég var skipaður í á síðasta ári af hálfu menntamálaráðherra, sem var ætlað að fara yfir og kortleggja auglýsingamarkaði í sjónvarpi og útfæra reglur um hugsanlega takmörkun á fyrirferð Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði, að í þeirri miklu vinnu sem þar var unnin kom fram að þeir sem starfa í kvikmyndagerðargeiranum voru mjög uggandi um hag sinn vegna þess að verkefnunum hefur fækkað. Fjármagnið í umferð til að framleiða kvikmyndir og sjónvarpsefni hefur minnkað og menn lýstu yfir miklum áhyggjum af því að hugsanlegt væri að í þessum geira yrði töluvert mikið atvinnuleysi og erfiðleikar fram undan. Ég tel því að mikilvægt sé að menn reyni að sporna við þeirri þróun sem margir vilja meina að sé komin af stað í atvinnugreininni og það skref sem hér er stigið er skref í rétta átt.

Hv. þm. Björk Guðjónsdóttir spurði áðan í sinni ágætu ræðu hvort Íslendingar ættu að vera að gera út á það að fá erlenda aðila til landsins til að framleiða hér kvikmyndir. Svar mitt við þeirri spurningu er afdráttarlaust já. Auðvitað eiga Íslendingar að reyna að gera út á það sem þeir hafa fram að færa í þessum iðnaði. Við eigum mjög gott fólk sem getur unnið að kvikmyndagerð hvort sem það er tæknifólk, tökumenn, leikarar, iðnaðarmenn eða hverjir sem eru. Við höfum einstaka náttúru sem engin ástæða er til að fela og gríðarlega reynslu og hæfileika á þessu sviði og ráðist hefur verið í fjárfestingar af hálfu þeirra sem í greininni starfa. Mér finnst því engin spurning að við Íslendingar eigum að gera út á það að reyna að laða erlenda aðila til landsins til kvikmyndagerðar. Þurfi stjórnvöld að ganga lengra til að hækka þetta endurgreiðsluhlutfall mun ég styðja viðleitni í þá átt ef það er til þess fallið að laða enn frekari verkefni hingað til lands.

Það liggur því fyrir, herra forseti, að ég er ánægður með málið, ég styð það og hef áhuga á því. Ég vona að það verði samþykkt bæði hratt og vel frá þinginu og það verði góðar fréttir fyrir kvikmyndaiðnaðinn á Íslandi.