136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[20:43]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hér er ólíku saman að jafna. Í þeim fjárfestingarsamningi sem liggur fyrir Alþingi er gert ráð fyrir ríkisstyrk til Norðuráls, Century Aluminum, að upphæð a.m.k. 1,6 milljarðar króna. (PHB: Skilar örugglega …) Það eru áhöld um það, hv. þingmaður, og fer eftir ýmsu og þær forsendur liggja ekki á lausu sem kunnugt er. (Gripið fram í.) Hér erum við þvert á móti að ræða um 157 millj. kr. niðurfellingu, mögulega, á ári í stað 125 millj. og eins og ég segi hefur verið upplýst að þetta eru ekki bein útgjöld úr ríkissjóði heldur er þetta þvert á móti til þess fallið að hækka verulega á móti skatttekjur ríkissjóðs, auka atvinnu í fjöldamörgum greinum fyrir utan það að styrkja kvikmyndaiðnað á Íslandi.