136. löggjafarþing — 118. fundur,  31. mars 2009.

aðstoð við VBS og Saga Capital.

[13:37]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég óska þess að ræða hér um VBS og Saga Capital. Þannig var að nýendurkjörinn formaður Vinstri grænna kom út af landsfundi þeirra í miklu stuði og lýsti því yfir að nú væri kominn tími til að leggja meiri álögur á íslenskan almenning og draga saman í íslensku samfélagi. En hann var varla búinn að sleppa orðinu þegar hann tilkynnti að þetta gilti að vísu bara um íslenskan almenning og íslensk heimili því að hann ætlaði að fella niður skuldir tveggja fjármálafyrirtækja um 8 þúsund millj. kr. og gerði það með því að breyta verðlitlum verðbréfum í verðtryggt lán til sjö ára með aðeins 2% vöxtum. Ástæðan fyrir þessu góða tilboði hæstv. fjármálaráðherra voru verðlausar tryggingar og að Seðlabankinn hafði árangurslaust reynt að bæta úr veðunum hjá þessum fyrirtækjum. Enginn annar samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér, hefði veitt þessum fyrirtækjum lán, hvað þá á þessum kjörum en ef einhver hefði kannski hugsað sér að veita þeim lán hefðum við kannski verið að tala um 12% vexti verðtryggða frekar en 2%. Þetta þýðir raunar að þarna var verið að afskrifa þriðjung af kröfunum sem ríkið hefur á þessi fyrirtæki.

Ég ætla að endurtaka þetta. Þarna var spurning um afskriftir, niðurfellingu á skuldum fyrirtækja. Sami ráðherra hefur síðan ... (Gripið fram í: Er það ekki það sem Framsókn vill?) Já, það er einmitt það sem Framsókn vill, en þessi sami ráðherra hefur hins vegar verið í því að úthúða hugmyndum um niðurfellingu lána almennings, sem sagt leiðréttingu á verðtryggingu eða gengisbreytingu síðustu mánaða. Og hæstv. forsætisráðherra hefur talað um að ef eitthvað svoleiðis yrði gert til að koma til móts við heimilin væri það stærsta millifærsla fjármagns af einstaklingum til fyrirtækja sem sögur fara af.

Hins vegar vil ég nefna hér einfalt dæmi og það væri áhugavert að heyra hvað formaður viðskiptanefndar segir um þetta: Ef húsnæðislán sem eru að meðaltali til 20 ára og bera 4,5% vexti mundu í staðinn fá þessi kjör, mundi það þýða 20% lækkun á höfuðstóli þeirra. (Forseti hringir.) Hver er ástæðan fyrir því að hægt er að koma til móts við svona loftbólufyrirtæki en ekki heimilin í landinu?