136. löggjafarþing — 118. fundur,  31. mars 2009.

aðstoð við VBS og Saga Capital.

[13:43]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Já, hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon er að passa auðvaldið. Það er algerlega á hreinu. Ríkið er að hygla fjármagnseigendum og stórskuldugum fyrirtækjum en vill ekki koma til móts við þau heimili sem skulda. Það er nefnilega þannig að það mætti, alveg eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir kom inn, gera það sama fyrir heimilin í landinu, mætti einmitt greiða fyrir húsnæðislán gömlu bankanna með skuldabréfum með vöxtum undir markaðsvöxtum til að ná afslætti og skila því síðan til heimila nákvæmlega eins og verið er að gera hér.

Menn hafa reiknað út að um 20% af því eigin fé sem ríkissjóður ætlar að leggja nýju bönkunum til fari í að greiða tap vegna útborgunar úr peningamarkaðssjóðum. Síðan er það þannig að við ábyrgjumst allar innstæður í bönkum með neyðarlögunum og erum því sífellt að hygla fjármagnseigendum, fólki sem á peninga en við erum ekki að gera neitt fyrir fólk sem setti sína peninga í fasteignir. (Gripið fram í.) Hæstv. fjármálaráðherra er ekki að gera neitt. Ríkisstjórnin er ekki að gera neitt fyrir heimilin í landinu. (Gripið fram í: Allt í boði Framsóknarflokksins.) Við erum að reyna að gera okkar besta til þess að það sé eitthvað gert hérna. Við höfum lagt fram okkar eigin tillögur en það hefur ekkert verið tekið undir þær. (Gripið fram í.) Menn hafa ekki verið tilbúnir til að skoða neinar almennar aðgerðir fyrir heimilin í landinu, bara sértækar aðgerðir. (Gripið fram í: Bara nafnlaust.) Og það er hlálegt þegar það kemur síðan fram í greinargerðinni með greiðsluaðlögunarfrumvarpinu sem var verið að samþykkja að svo virðist sem ríkisstjórnin geri ráð fyrir að 100–200 manns þurfi á greiðsluaðlögun að halda í landinu. Trúið mér, það verða ekki bara 100–200 manns sem þurfa á aðstoð að halda. Ég segi því að hæstv. fjármálaráðherra er að búa til sitt eigið safn af ólígörkum, eitthvert sambland af Jeltsín og Pútín, þar sem hann ætlar að velja úr þá sem eiga að lifa af og þá sem eiga ekki að lifa af. (Gripið fram í: Hver gerir þetta allt saman?) Þetta er mjög mikið áhyggjuefni og sérstaklega mikil vonbrigði að þetta skuli koma frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði.