136. löggjafarþing — 118. fundur,  31. mars 2009.

aðstoð við VBS og Saga Capital.

[13:45]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Það er mikill misskilningur hjá hv. þm. Pétri Blöndal að Steingrímur J. Sigfússon eða einhverjir sérstakir einstaklingar eða aðrir í ríkisstjórninni hafi sett þessi fyrirtæki sem hann hér nefndi á hausinn. Þau gerðu það einfaldlega sjálf. Það var stefna fyrri ríkisstjórnar og 18 ára stefna og störf Sjálfstæðisflokksins í þessu landi ásamt áhættusækinni framgöngu þessara fjármálastofnana sem settu þær lóðbeint á hausinn og eru í raun að kollsigla efnahag íslensku þjóðarinnar um leið. Þetta er því mikill misskilningur hjá hv. þm. Pétri Blöndal. Ég veit að hann er betur að sér en svo að hann tali af heilum hug um þetta sem lánafyrirgreiðslu sem hér er um að ræða.

Ég vil vekja athygli á því, herra forseti, og rifja upp að hér fóru engir fjármunir á milli. Þetta er uppgjör á gamalli skuld í þeirri von að eitthvað fáist upp í tapið sem er nú orðið ærið hjá ríkissjóði.

Þau kjör sem þarna um ræðir eru einnig þannig að sett eru afar ströng skilyrði. Það eru sett afar ströng skilyrði um það hvernig þessar fjármálastofnanir mega starfa á tímabilinu og lánin verða gjaldfelld með 30 daga fyrirvara ef þau skilyrði eru ekki haldin.

Ég vil líka vekja athygli á því að allt sem snertir þetta mál er uppi á borðum. Allt heila samkomulagið er inni á heimasíðu fjármálaráðuneytisins þannig að hér eiga menn ekkert að velkjast í vafa. Allt uppi á borðum er okkar mottó. (Gripið fram í.)