136. löggjafarþing — 118. fundur,  31. mars 2009.

aðstoð við VBS og Saga Capital.

[13:58]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt. Á eftir verður rætt 7. mál á dagskrá, greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Þetta er ekki ríkisstjórnarfrumvarp heldur er það allsherjarnefnd sem flytur frumvarpið með fulltingi allra flokka og það er vel.

Við skulum bara fara yfir þetta og hafa þetta einfalt í staðinn fyrir það orðagjálfur sem kemur frá stjórnarmeirihlutanum. Hefur gengið styrkst? Nei, það hefur ekkert styrkst. Það hefur lækkað. Hafa vextir lækkað gríðarlega hjá hinni verklausu ríkisstjórn? (Gripið fram í.) Nei, um heilt 1%. Bankarnir — eru þeir komnir í betra horf? (Gripið fram í.) Eru bankarnir komnir í betra horf? Einföld spurning. Nei, Straumur er farinn á hausinn og aðrir bankar eru í erfiðleikum. Hvað með ríkisfjármálin? Það er ekkert tekið á þeim.

Það kemur ekkert frá ríkisstjórninni. Jú, hvað er sett á dagskrá? Nektardansstaðir. Það eru málin frá ríkisstjórninni. (Gripið fram í: … græða á því.) Kynjuð hagstjórn. Nei, við skulum ræða þessi mál (Gripið fram í: Lífsýnasöfn.) á nýju þingi. Það er sjálfsagt mál.

(Forseti (KHG): Forseti óskar eftir því að þingmenn gefi ræðumanni gott tóm til að koma máli sínu fram.)

Það er svolítill taugatitringur í gangi þegar þessi mál eru nefnd. Mér finnst ágætt að hv. framsóknarmenn skuli hafa dregið fram þessi verk sem engin eru hjá ríkisstjórninni. Það er ágætt að draga þetta fram. En þannig er þetta einfaldlega: Bankarnir eru ekki komnir í lag. Gengið er ekki í lagi. Vextirnir eru ekki í lagi. Hvaða verk hafa komið frá ríkisstjórninni sem virkilega snúa hjólum atvinnulífsins aftur? Engin. Við erum að tala um kynjaða hagstjórn og nektardansstaði. Ég vil fá önnur mál. Alvörumál hér. (Gripið fram í.)