136. löggjafarþing — 118. fundur,  31. mars 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[14:12]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Með þessu frumvarpi er verið að leggja það til að endurgreiðsluhlutfall vegna kvikmyndagerðar á Íslandi verði hækkað úr 14% í 20%. Með því teljum við sjálfstæðismenn að verið sé að skapa skilyrði til að laða til landsins erlenda kvikmyndagerðarmenn til að taka hér upp og framleiða kvikmyndir. Það er ákaflega jákvætt fyrir þá fjölmörgu sem starfa í kvikmyndaiðnaðinum. Margar stéttir þar eiga undir högg að sækja og því er mikilvægt að stjórnvöld sýni vilja sinn í verki til að reyna að styðja við bak þeirrar atvinnugreinar. Hér er Ísland að taka þátt í skattasamkeppni milli landa, samkeppni sem t.d. Evrópusambandið hefur alltaf verið á móti en við sjálfstæðismenn erum fylgjandi. Við erum fylgjandi þeim málum sem eru til þess fallin að efla (Forseti hringir.) atvinnuuppbyggingu í landinu og við styðjum þetta mál.