136. löggjafarþing — 118. fundur,  31. mars 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[14:13]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér er eins og fram hefur komið verið að hækka endurgreiðslu á öllum framleiðslukostnaði kvikmynda sem teknar eru og framleiddar á Íslandi úr 14% í 20%. Þetta er stórt skref fyrir íslenskan kvikmyndaiðnað og einnig er mikilvægt að koma Íslandi á kortið þannig að við getum verið samkeppnishæf við önnur lönd í þessum efnum.

Það skiptir líka miklu máli fyrir ríkissjóð í þeim þrengingum sem hann á í að opna hér möguleika á tekjuskapandi verkefnum vegna þess að hver króna sem lögð er í verkefni af þessu tagi er talin geta skilað sér þrefalt til baka í ríkissjóð. Þetta er mikið framfaraskref og við styðjum það heils hugar.