136. löggjafarþing — 118. fundur,  31. mars 2009.

greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

461. mál
[15:12]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Mér rennur blóðið til skyldunnar að fjalla hér um þetta frumvarp til laga um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði sem hv. allsherjarnefnd Alþingis flytur, einfaldlega af þeirri ástæðu að ég á sæti í nefndinni og er þar af leiðandi einn af flutningsmönnum málsins.

Frumvarpið felur í sér aðgerð til þess að reyna að vernda heimilin í landinu, veita þeim tímabundna greiðsluaðlögun vegna fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Um helgina hélt Sjálfstæðisflokkurinn landsfund sinn, fjömennan og glæsilegan landsfund þar sem flokkurinn lagði fram þær meginlínur sem hann hyggst berjast fyrir og leggja áherslu á í aðdraganda komandi alþingiskosninga. Eitt af þeim lykilatriðum sem fram koma í stjórnmálaályktun fundarins er að flokkurinn vill tryggja vernd heimilanna í landinu og einkum þeirra sem skuldsett eru. Það er einmitt af þeirri ástæðu sem við treystum okkur til að standa að þessu máli. Þau efnisatriði sem koma fram í því eru fyllilega í samræmi við þau sjónarmið sem landsfundur okkar og forusta Sjálfstæðisflokksins hefur lagt áherslu á við þær aðstæður sem nú eru uppi í samfélaginu.

Það kom fram í upphafi umræðunnar þegar hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson fór í andsvar við framsögumann málsins, hv. þm. Árna Pál Árnason, að það liggja ekki fyrir nægjanlegar upplýsingar um þann kostnað sem til fellur vegna málsins eða þá fjármuni sem ríkið þarf að reiða af hendi vegna samþykktar þessa máls. Ég hef litið þannig á að þó svo að þetta mál sé brýnt sé mikilvægt að fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins verði fengið það hlutverk að fara yfir málið og kostnaðargreina það eins og öll önnur mál.

Það er rétt sem kom fram í umræðu um frumvarpið um almennu greiðsluaðlögunina, sem varð að lögum í gær, að menn eru býsna ósammála um hversu margir muni leita greiðsluaðlögunar. Í kostnaðarmati sem fylgdi því frumvarpi komu fram tölur sem m.a. Samtök atvinnulífsins gagnrýndu mjög í umræðu um það mál. Samtök atvinnulífsins töldu að sá fjöldi sem fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins hefði metið varðandi þörfina og fjölda þeirra sem mundu leita eftir þessu úrræði væri stórlega vanmetinn og sömu sjónarmið koma fram á forsíðu Morgunblaðsins í dag hjá Eiríki Elísi Þorlákssyni hæstaréttarlögmanni.

Ég tel að þegar þessari umræðu er lokið sé okkur skylt að taka málið inn í nefnd á milli umræðna til að fá þessar upplýsingar frá fjármálaráðuneytinu. Ég tel það óumflýjanlegt, ekki síst vegna þess, eins og fram hefur komið í þessu máli, að það er ekki einungis verið að lengja í lánum heldur má segja að við tilteknar aðstæður megi gera ráð fyrir að einhverjar skuldir verði felldar niður. Slík niðurfelling felur auðvitað í sér að ríkisvaldið þarf að taka á sig ákveðnar fjárhagsbyrðar eða með öðrum orðum fær ekki til baka það sem áður hafði verið lánað. Ég tel því eðlilegt að gerð verði úttekt á þessum hluta málsins.

Um frumvarpið sem slíkt og uppbyggingu þess þá er það í samræmi við hið almenna greiðsluaðlögunarfrumvarp, sem samþykkt var sem lög frá Alþingi í gær, og það er í samræmi við þau sjónarmið sem forusta Sjálfstæðisflokksins hefur á fyrri stigum lagt áherslu á í frumvarpi um skuldaaðlögun sem hv. þm. Björn Bjarnason lét semja og lagði fram á Alþingi. Við í Sjálfstæðisflokknum getum fyllilega fallist á þá uppbyggingu sem er á frumvarpinu og teljum að hún gangi lagalega upp, enda er þetta frumvarp samið, ef svo má segja, af sömu mönnum og komu að samningu frumvarpsins um hina almennu greiðsluaðlögun, þrátt fyrir að fram hafi komið efasemdir við meðferð málsins í nefndinni við einstakar greinar og kannski fyrst og síðast við 12. gr. frumvarpsins sem málsmetandi aðilar í lögfræðiheiminum töldu að væri ábótavant og gengi í rauninni ekki upp eins og henni var fyrir komið í upphafi.

Af þeirri ástæðu hefði ég talið að vinna þyrfti örlítið betur í þessu máli þrátt fyrir að ég sé samþykkur efnisatriðum þess, en ég tel að þetta mál sé þess eðlis og það sama á við um frumvarpið um almenna greiðsluaðlögun, sem samþykkt var sem lög frá Alþingi í gær eins og áður sagði, að þessi mál þurfi að vera til stöðugrar endurskoðunar og eftirlits varðandi framkvæmd og framgang hjá Alþingi. Ég tel mikilvægt að þingið sjálft fylgist mjög vel með því hversu margir leita eftir því að komast í þetta úrræði vegna vandamála sinna og það sama eigi við um fasteignaveðkröfurnar.

Auðvitað er það fagnaðarefni að fulltrúar allra stjórnmálaflokka leggi þessu máli lið. Þetta mál er ekki stjórnarfrumvarp heldur er þverpólitísk sátt um það innan þingsins að reyna að fara þessa leið til að vernda heimilin í landinu, þó þannig að það eru auðvitað sett ákveðin skilyrði fyrir því að héraðsdómari geti veitt og tekið afstöðu til beiðni um að greiðsluaðlögun verði veitt. Héraðsdómari getur, eins og segir í 4. gr. frumvarpsins, hafnað beiðni um greiðsluaðlögun ef tilteknar aðstæður eru uppi. Því er í sjálfu sér ekki verið að veita dómstólum landsins óútfylltan tékka sem býðst öllum. Þar er t.d. tekið fram að héraðsdómari geti hafnað beiðni um greiðsluaðlögun þegar þannig stendur á að skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Í annan stað segir að hafi til skulda verið stofnað á þeim tíma sem skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar geti héraðsdómari hafnað slíkri beiðni. Það sama á við hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.

Með öðrum orðum fela þessi skilyrði og þetta ákvæði það í sér að flutningsmenn frumvarpsins eru reiðubúnir til þess að leggja sig fram um það að tryggja að heimilin í landinu og þeir sem hafa reynt að haga fjárhagsmálum sínum með skynsamlegum hætti eigi kost á þeim úrræðum sem hér eru til umfjöllunar. En hafi menn hagað sér óskynsamlega eða haft uppi háttsemi sem kann að varða þá refsingu eða jafnvel skaðabótaskyldu eiga þeir ekki kost á þessum úrræðum. Ég tel að þetta sé ábyrg afstaða löggjafans varðandi þessi úrræði og undirstrikar þann vilja okkar að koma til móts við þá sem þurfa á þessu úrræði að halda og eiga rétt til þess.

Við höfum aflað okkur gagna um húsnæðisskuldir heimilanna. Það eru áhugaverðar upplýsingar sem fram koma í þeim gögnum sem nefndin hefur kallað eftir. Settur hefur verið á stofn sérstakur starfshópur í Seðlabanka Íslands sem fjallar um skuldir heimilanna. Hann lagði fram á fundi nefndarinnar samantekt frá 27. mars árið 2009 sem er mjög upplýsandi um dreifingu húsnæðisskulda eftir eigna- og skuldahópum. Þar kemur fram að heildarfasteignaveðlánaskuldir í gagnagrunni sem starfshópurinn hefur undir höndum og samanstendur af gögnum frá Nýja Kaupþingi, Landsbankanum eða NBI, Íslandsbanka, Íbúðalánasjóði og sparisjóðunum og öðrum minni fjármálafyrirtækjum eru 1.260 milljarðar kr. Fasteignaveðlán frá lífeyrissjóðunum eru þar ekki innifalin en þau gætu numið 170 milljörðum kr. til viðbótar þannig að heildarhúsnæðisskuldir yrðu um 1.430 milljarðar kr. Öll lán, segir í plagginu, þar sem á bak við er veð í húsnæði eru skilgreind sem fasteignaveðlán. Af fasteignaveðlánum í grunninum eru 198 milljarðar í erlendri mynt, þar af 78 milljarðar kr. í svissneskum frönkum og 87 milljarðar kr. í japönskum jenum.

Í þessu plaggi er farið yfir það hvað afskriftir fasteignaveðlána mundu kosta ríkissjóð og þar eru tilteknar þær tvær aðgerðir sem helst hafa verið í umræðunni. Annars vegar 20% afskrift allra húsnæðisskulda og hins vegar 4 millj. kr. lækkun húsnæðisskulda hvers heimilis. Það er athyglisvert að fara yfir niðurstöðuna en hún er sú að sú leið að afskrifa skuldir hvers heimilis um 4 millj. kr. virðist vera dýrari en 20%-leiðin. Þetta er allt saman útskýrt í þessu plaggi og að sama skapi hvaða hópum þessar leiðir mundu nýtast. Ég ætla svo sem ekki að fara nánar út í þetta skjal, það er ágætt til síns brúks og þetta er mjög mikilvæg vinna sem þessi starfshópur Seðlabanka Íslands sem kom á fundi nefndarinnar hefur verið að vinna um skuldir heimilanna. Ég tel að hún komi ekki í staðinn heldur sé til viðbótar við þá kostnaðargreiningu sem þarf að fara fram, það kostnaðarmat sem þarf að fara fram af hálfu fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins vegna þessa máls. Þetta er, eins og ég sagði áðan, mikilvægt mál, það felur í sér mikilvæga aðgerð til þess að vernda heimilin í landinu. Það kann hins vegar að vera að á því séu ágallar sem þarf að lagfæra og ég tel því nauðsynlegt að áður en að samþykkt þess kemur verði farið formlega í það að kostnaðargreina málið fyrir þingmenn. Ég held að það verði erfitt fyrir okkur að standa að því að taka afstöðu til málsins áður en þeirri vinnu hefur verið lokið.