136. löggjafarþing — 120. fundur,  31. mars 2009.

tollalög og gjaldeyrismál.

462. mál
[22:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breyting á tollalögum, nr. 88/2005, og lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992 með síðari breytingum, frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Maríönnu Jónasdóttur og Ögmund Hrafn Magnússon frá fjármálaráðuneyti, Þóru Margréti Hjaltested frá viðskiptaráðuneyti, Högna S. Kristjánsson og Sesselju Sigurðardóttur frá utanríkisráðuneyti, Arnór Sighvatsson og Tómas Örn Kristinsson frá Seðlabanka Íslands, Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Gylfa Arnbjörnsson frá Alþýðusambandi Íslands, Árna Huldar Sveinbjörnsson frá Fjármálaeftirlitinu, Snorra Olsen frá embætti tollstjórans í Reykjavík, og Rósmund Guðnason frá Hagstofu Íslands. Einnig ræddi nefndin símleiðis við Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóra Landssambands íslenskra útvegsmanna.

Tilgangur frumvarpsins er að treysta markmið laga um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, samanber breytingu sem gerð var á þeim með lögum nr. 134/2008, um styrkingu íslensku krónunnar, samanber einnig reglur Seðlabanka Íslands um gjaldeyrismál frá 15. desember 2008. Þar var kveðið á um skilaskyldu gjaldeyris og er í frumvarpinu rennt styrkari stoðum undir hana með því að kveða á um að greiðslur vegna útflutnings vöru og þjónustu skuli skilyrðislaust fara fram í erlendum gjaldmiðli. Þá kemur fram að til standi að eftirlitsstofnunum Evrópska efnahagssvæðisins verði tilkynnt um þá ráðstöfun sem í frumvarpinu felst.

Á fundi nefndarinnar kom fram að vart hefði orðið tilhneigingar til að fara í kringum skilaskyldu gjaldeyris og að sú þróun gæti leitt til frekari veikingar á íslensku krónunni. Frumvarpinu væri ætlað að fyrirbyggja þetta.

Meiri hlutinn telur að frumvarpið samræmist anda laga nr. 134/2008 og sé þeim lögum til styrkingar. Meiri hlutinn leggur áherslu á mikilvægi þess að tryggja skilvirkt eftirlit með því að skilaskyldan verði virt og að embætti tollstjórans í Reykjavík og Seðlabanki Íslands vinni saman að því markmiði.

Meiri hlutinn leggur til þrenns konar breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi tæknilega breytingu á 3. efnismálslið 1. gr., í öðru lagi orðalagsbreytingu á 1. efnismgr. 3. gr. og í þriðja lagi breytingu á 3. efnismgr. 3. gr. þess efnis að við hana bætist nýr málsliður sem ætlað er að skerpa á heimild eftirlitsaðila til að fylgja því eftir að skilaskyldan verði virt.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum.

Við 1. gr. 3. efnismálsliður orðist svo: Sé ekki ljóst af sölureikningi hver sé gjaldmiðill viðskiptanna skulu þau skráð í evrum eða bandaríkjadölum á útflutningsskýrslu.

Við 3. gr. Í stað orðanna „öll útflutningsviðskipti með“ í 1. efnismgr. komi: greiðslur vegna útflutnings.

Við 3. efnismgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá er ráðherra heimilt að mæla fyrir um skyldu aðila til að skila, með reglubundnum hætti, skýrslu um útflutningsviðskipti, um ráðstöfun söluandvirðis og um önnur atriði er lúta að útflutningi.

Grétar Mar Jónsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Undir nefndarálitið skrifa Björgvin G. Sigurðsson, framsögumaður, Árni Þór Sigurðsson, Ellert B. Schram, Gunnar Svavarsson, Jón Bjarnason og Birkir J. Jónsson.