136. löggjafarþing — 120. fundur,  31. mars 2009.

tollalög og gjaldeyrismál.

462. mál
[22:31]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Þann 28. nóvember sl. setti ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar haftalög á Alþingi vegna gjaldeyrisviðskipta. Það frumvarp sem við ræðum hér er afleiðing þeirrar löggjafar. Við erum í raun og veru að lappa upp á þá löggjöf eða það sem misfórst í löggjöf á þeim tíma.

Við framsóknarmenn vorum mjög á móti því hvernig að setningu haftalaganna var staðið á sínum tíma. Það voru einnig Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins. Hún er minnisstæð sú nótt þegar við hv. þingmenn þurftum að fjalla um málið í nefndinni og hlustuðum á gesti sem komu á fund nefndarinnar sem lýstu því að ekkert samráð hefði verið haft við þá um útfærsluna á þeim miklu höftum sem þá voru innleidd. Enda fór það svo að við framsóknarmenn gátum ekki samvisku okkar vegna stutt það frumvarp sem þá var keyrt í gegn yfir eina nótt og greiddum því ekki atkvæði.

Hins vegar í ljósi þess að við höfum sagt það hér að við séum tilbúin að greiða götu mála sem við teljum vera af hinu góða, viljum við styðja þær breytingar sem verið er að gera á þessum haftalögum í kvöld. Hér er verið að koma í veg fyrir að gengi íslensku krónunnar veikist enn frekar en nú er, því að það er ljóst og okkur berst það til eyrna að einhverjir útflytjendur fái greitt fyrir vörur sínar innan lands með íslenskum krónum en kaupandinn greiði annaðhvort beint eða í gegnum millilið í erlendum gjaldmiðli til aðila utan landsteinanna og þannig hefur verið dregið mjög úr áhrifamætti gjaldeyrisreglna Seðlabankans. Ég hefði því viljað sjá hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem komu að því að setja þessi haftalög á sínum tíma standa með öðrum þingmönnum að því að reyna að bæta þá löggjöf sem þá var samþykkt í þinginu og stuðla að aðgerðum sem vonandi munu leiða til þess að gengi íslensku krónunnar styrkist. Það er óhugnanlegt að sjá hversu veik íslenska krónan er í dag og við þurfum að leita allra leiða til að styrkja gjaldmiðilinn okkar.

Eins og fram hefur komið, bæði á fundum nefndarinnar og í umræðum í sölum Alþingis þegar umrædd löggjöf var sett á sínum tíma, leiða höft oftar en ekki til frekari hafta. Það er ekki nýtt í sögunni og það er það sem við horfumst í augu við í dag, herra forseti.

Við skulum líka horfa til þess að við erum með aðgerðum okkar hér á landi í mörgum málum að brjóta EES-sáttmálann og við skulum huga að því hvort það geti leitt til þess að það samstarf verði í uppnámi í framtíðinni, hvort þolinmæði muni bresta gagnvart okkur Íslendingum. Fyrir okkur sem viljum eiga samstarf við aðrar þjóðir þegar kemur að alþjóðaviðskiptum er þetta mikið áhyggjuefni.

Hæstv. forseti. Við framsóknarmenn styðjum efnislega það frumvarp sem lagt hefur verið fram, frumvarp sem er í raun og veru afsprengi löggjafar sem sett var á síðasta ári og fólst í haftalögunum. Þetta er breyting sem á að leiða til þess að gengi krónunnar verði sterkara en ella, ef við hefðum ekki ráðist í þessar breytingar og þess vegna styðjum við þetta mál. Hins vegar minni ég á það, herra forseti, að við framsóknarmenn höfðum lagt fram í þinginu ítarlegar tillögur í efnahagsmálum sem snerta heimilin og fyrirtækin í landinu. Þörf er á róttækum aðgerðum í þeim efnum. Því miður sýnist mér allt stefna í það að við séum ekki að ná þeim árangri sem við ætluðum í því efni að ná samstöðu um þau mál. Við teljum að grípa þurfi til róttækra aðgerða þegar kemur að vandanum í efnahagslífinu. Sú lausn sem við erum að tala um hér er ekki róttæk í eðli sínu en hún mun þó vonandi leiða til þess að gengi krónunnar verði sterkara en ella því að við vitum að atvinnulífið og heimilin í landinu, mörg hver, eru með gengistryggð lán og þau lán eru að fara upp úr öllum hæðum. Við þurfum að skjóta styrkari stoðum undir gjaldmiðilinn okkar, undir efnahagslífið og þetta frumvarp er alla vega markmið að því að styrkja stöðu íslenskra efnahagsmála, styrkja stöðu krónunnar og þar með heimilanna og fyrirtækjanna í landinu.