136. löggjafarþing — 120. fundur,  31. mars 2009.

tollalög og gjaldeyrismál.

462. mál
[22:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Undanfarið hefur maður fylgst með hryllingi með gengisskráningu krónunnar. Hún hefur fallið mjög mikið síðustu tvær vikurnar og hafa verið færð fyrir því ýmis rök og ástæður. Við þessu hefur ríkisstjórnin brugðist með því að flytja frumvarp um breyting á lögum um gjaldeyrismál og samkvæmt eðli slíkra mála ber að afgreiða það áður en markaðir opna í fyrramálið. Þess vegna sitjum við hér og verðum að klára þetta mál í kvöld og ég ætla að gera mitt besta til að svo geti orðið. En það sem meira er, við verðum eiginlega að samþykkja þetta líka, það er nú það versta, og ekki vinnst tími til að breyta einu né neinu og það er líka slæmt. (Gripið fram í.) Þær breytingartillögur koma ekki frá þingmönnum, herra forseti.

Haldinn var fundur í hv. efnahags- og skattanefnd og þar komu fram mörg mismunandi sjónarmið. Harðasta sjónarmiðið kom frá fulltrúa ASÍ sem benti á að við værum að fara út í fen sem yrði varla aftur snúið frá. Nú vill svo til að ég man þá tíð að ekki var svo brotist inn í hús í Reykjavík að ekki væri stolið gjaldeyri, svo og svo miklum, vegna þess að almenningur hamstraði gjaldeyri. Fólk keypti gjaldeyri af ferðamönnum hvar sem í hann náðist. Það var vegna þess að þá voru mjög mikil gjaldeyrishöft, það voru höft á gjaldeyri út og suður. Sem betur fer tókst okkur að brjótast út úr því kerfi en mér sýnist og ég óttast að við séum að fara inn í það kerfi aftur. Hér er verið að setja lög sem skerpa á lögunum sem sett voru í nóvember og ég býst við því að innan nokkurra mánaða verði aftur sett lög sem skerpa á þessum lögum og ég mun nefna af hverju.

Ég tel, eftir upplýsingum sem komu fram í nefndinni, að hér gæti verið um yfirdrifin viðbrögð að ræða, þ.e. að menn bregðist of harkalega við einhverri stöðu vegna þess að þeir hafi kannski ekki áttað sig alveg á hvað var að gerast. Það hefur verið nefnt að stór pakki af jöklabréfum hafi verið á gjalddaga og að verið sé að flytja út vexti af þeirri upphæð sem er heimilt samkvæmt núgildandi lögum. Þarna sé um að ræða 15 milljarða kr. sem er umtalsverður hluti af veltunni á markaðnum. Það er því ekki skrýtið þó að gengið gefi eitthvað eftir. Á sama tíma sé það fyrirbæri sem menn óttast, þ.e. að menn kaupi krónur í útlöndum og flytji til landsins, eitthvað um einn milljarður. Mig grunar að þarna bregðist menn of harkalega við og ástæðan fyrir þessu gengisfalli sé þessi greiðsla af jöklabréfum sem er í eitt skipti og kemur næst aftur í júní/júlí, skilst mér, þannig að gengið hefði getað lagast þangað til. Svo vil ég nefna það að vextir eru náttúrlega háir í dag en ekki endilega háir raunvextir og þótt verið sé að borga 15 milljarða af jöklabréfunum eru það ekki raunverulegir peningar, það er verðbólga í krónunni eins og þekkt er, enn sem komið er.

Ég benti á það í haust að menn ættu að taka upp tvöfalt gengi, vöruskiptagengi sem við sjáum í dag og síðan ætti Seðlabankinn að vera með frjálst gengi og skilaskylda á útflutningi væri 90%, eða 80% gæti maður líka hugsað sér, þannig að það sé hvati fyrir útflytjendur að koma með gjaldeyrinn heim því að þeir megi selja hluta af honum á mjög háu verði til að mæta jöklabréfaútgreiðslunum. Núna sitjum við uppi með það að hér er margfaldur gjaldeyrismarkaður, sennilega hundraðfaldur. Úti um alla Evrópu geta menn keypt krónur. Ég tel að það hefði verið miklu heilbrigðara að Seðlabankinn héldi utan um þetta á einum markaði þannig að það myndaðist markaðsverð með frjálsar krónur og það væru þá vöruskiptakrónur og svo frjálsar krónur. En þetta er eitthvað sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn má ekki heyra nefnt og þess vegna var þessari hugmynd minni hafnað í haust.

Ég ætla að nefna dæmi hvernig auðvelt er að fara fram hjá þessum reglum og þessi breyting breytir engu um það. Við skulum hugsa okkur að á Ítalíu sé tannlæknir sem tók þátt í ævintýrinu með jöklabréfin. Hann tók lán í jenum og lagði inn í banka á Íslandi og hann á núna einhvern helling af krónum í banka á Íslandi og skuldar svo í Japan. Staðan er afskaplega slæm hjá honum því að jenið hefur hækkað en krónan hefur snarlækkað og sennilega er maðurinn orðinn gjaldþrota. Einhvers staðar nálægt honum býr fiskkaupandi sem langar til að kaupa fisk á ódýru verði. Hann vill helst græða sem mest. Hann er Ítali líka og hann kaupir krónurnar af þessum náunga, þessum tannlækni. Krónurnar eru geymdar í Landsbankanum. Svo fer hann til Íslands og tekur út krónurnar og kaupir fisk á Íslandi fyrir þessar krónur. Það er verið að kaupa íslenskan fisk á íslenskum markaði eða í íslenskri fiskbúð með íslenskum krónum, algerlega löglegt. Svo flytur hann þetta út, hann fyllir út útflutningsskýrslu og setur einhverjar evrur þarna miðað við eitthvert gengi, hvort sem það er gengið sem hann borgaði eða ekki, það skiptir ekki máli. Svo á hann að skila þessum gjaldeyri en honum finnst það sniðugt og hlær því að hann er bara á Ítalíu og kemur aldrei aftur. Næst kemur bróðir hans og þar næst kemur frændi hans. Þetta er afskaplega auðveld leið til að komast fram hjá þessu.

Önnur leið er t.d. ferðaskrifstofa á Ítalíu við hliðina á tannlækninum fræga og umrædda. Þessi ferðaskrifstofa ætlar að flytja 20 ítalska túrista til Íslands. Hún gerir nákvæmlega það sama, hún kaupir krónurnar af umræddum tannlækni á afskaplega lágu verði. Fer með hóp til Íslands, tekur út úr Landsbankanum eða hvar sem krónurnar eru geymdar og borgar hótelið og allt saman með þeim. Um þetta veit ekki nokkur einasti maður, ekki frekar en þegar Íslendingar fara um landið. Ég sé, því miður, ekki að þessar reglur breyti yfirleitt nokkrum sköpuðum hlut, herra forseti, um þetta. Það næsta sem maður sér náttúrlega er gjaldeyrislögregla o.s.frv. til að hafa enn meira eftirlit með þessu.

Ég man þá tíð líka að menn voru með tvöfalda reikninga. Innflytjendur þóttust borga hærra verð fyrir innflutninginn, það var gefinn út hærri reikningur og svo annar lægri sem þeir borguðu raunverulega og mismunurinn var færður inn á reikning í Sviss. Þetta er lögbrot en afskaplega erfitt að tékka á því. Svo eru útflytjendur, þeir ætla kannski að selja fisk á 100 þúsund evrur á Ítalíu og þá semja þeir við kaupandann um að hann skrifi út reikning upp á 80 þúsund evrur og það er það sem þeir flytja til Ísland, 20 þúsund evrur fara inn á banka í Sviss og heita ráðgjafarlaun, laun fyrir ráðgjöf. Það er mjög erfitt að komast að þessu því að þessi útflytjandi á Íslandi er sérfræðingur í því að steikja þorsk og veitir um það dýrmæta ráðgjöf. Þetta er það sem kemur næst, ég lofa því. Við erum að fara út í mjög slæma stöðu. Ég held að menn ættu í alvöru að ræða við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, sem gat ekki komið á fund nefndarinnar, um að taka upp það sem ég nefndi, takmarkaða skilaskyldu, 80–90%, þannig að það sé hvati fyrir menn að koma með gjaldeyri til landsins, og hafa svo opinbert frjálst gengi á krónunni í staðinn fyrir að hafa þetta úti um alla Evrópu á alls konar gengi.

Sumir hér geta aldrei geta tekið til máls án þess að minnast á evru og Evrópusambandið og inngöngu í það og halda að það leysi allan vanda. Segjum að við göngum í Evrópusambandið, þá sýnist mér að það líði svona 10 ár þangað til við uppfyllum Maastricht-skilyrðin og sérstaklega ef Evrópusambandið kúgar okkur enn meira til að ganga til samninga um Icesave-reikningana því að það er að kúga okkur til þess. Það gæti liðið æðilangur tími þangað til við tækjum upp evru með þessum hætti. Ég veit ekki hvar þessir evrusinnar eru núna en þeir eru ekki í salnum. En sumir geta aldrei flutt neina ræðu, hvort sem það er um barnaverndarmál eða hvað sem er, án þess að finna lausnina í því að ganga í Evrópusambandið. (Gripið fram í.) Það er rétt en hann er ekki eins mikill evrusinni og margir aðrir, hæstvirtur. (Gripið fram í: Þú ert búinn að tala um evru í allri ræðu þinni.) Nei, nei, það var bara rétt undir lokin.

Ég vil endilega að þetta mál fari í gegn og þess vegna ætla ég ekki að tala miklu lengur en ég treysti mér ekki til að standa að þessu vegna þeirra galla sem ég nefndi og að þetta séu hugsanlega yfirdrifin viðbrögð. Ég mun sitja hjá en ég veit að þetta verður að afgreiðast núna.