136. löggjafarþing — 120. fundur,  31. mars 2009.

tollalög og gjaldeyrismál.

462. mál
[23:04]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur komið fram í máli þriggja ræðumanna að hér sé verið að breyta og auka þau gjaldeyrishöft og þær gjaldeyrisskilareglur sem settar voru á í haust. Það er misskilningur. Þær standa að öllu leyti óbreyttar, þær eru í boði Sjálfstæðisflokksins. Hér er verið að gera tæknilega breytingu á útfyllingu útflutningsskýrslna til að tryggja að gjaldeyrisskilareglurnar haldi, að þær nái tilgangi sínum, að ekki sé farið fram hjá þeim, menn fari ekki hjáleið á gráu svæði eða sporna gegn leka í því kerfi sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði forustu um að setja á í haust til að reyna að styrkja krónuna.

Gjaldeyristakmarkanirnar sem lúta að fjármagnshreyfingum til og frá landinu standa að öllu leyti óbreyttar og þetta hefur engin áhrif á þær og gjaldeyrisskilareglurnar eru sömuleiðis algerlega óbreyttar. Hér er í raun eingöngu um tæknilega breytingu að ræða sem er ætlað að koma í veg fyrir þann leka sem sannanlega er í kerfinu og þingmenn hafa tekið undir að sé alvörumál.

Eins og ég fór yfir í ræðu minni í dag hefur útflutningur í krónum margfaldast milli mánaða á þessu ári og hinu síðasta. Sést það best með því að skoða það sem af er marsmánuði. Þegar tölur voru teknar saman var útflutningur í fyrra upp á 160 milljónir kr. en stefnir núna í um 1.400 milljónir og voru þá þó nokkrir dagar eftir af marsmánuði.

Þingmenn hafa talað um að það sé óumflýjanlegt að taka á þessu og virðist vera samstaða um það. Engu að síður treystir Sjálfstæðisflokkurinn sér ekki til að styðja þessar lagfæringar á sinni eigin löggjöf frá því í haust. Það er athyglisvert, satt best að segja mjög athyglisvert, ekki síst í ljósi þess að útflytjendur, samtök útgerðarmanna og fleiri aðilar, mæla eindregið með því að gripið sé til þessara ráðstafana. Ég fagna því að sjálfsögðu að til þess kemur ekki, eins og virtist stefna í í dag, að hreint neyðarástand skapist í fyrramálið. Það er gott að Sjálfstæðisflokkurinn sá að sér í þeim efnum og ég held að það væri hyggilegt fyrir okkur öll að ljúka þessari umræðu í anda þess sem var í haust þegar (Forseti hringir.) yfirleitt bara einn talaði frá hverjum flokki og menn greiddu götu þess að mál gengju hratt fram. Því fyrr sem við gerum þetta að lögum, þeim mun fyrr verður hægt að birta Stjórnartíðindin og tryggja að (Forseti hringir.) þetta gangi snurðulaust fyrir sig í fyrramálið.