136. löggjafarþing — 120. fundur,  31. mars 2009.

tollalög og gjaldeyrismál.

462. mál
[23:28]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Það er dálítið merkilegt, herra forseti, að hv. þm. Árni Páll Árnason neitar að skoðar aðra möguleika sem í boði eru og kallar eina þeirra hugmynda sem ég nefndi, einhliða upptöku alþjóðlegs gjaldmiðils á Íslandi, galna eða kolvitlausa. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður er reglulegur lesandi tímaritsins Economist, sem er líklega eitt virtasta hagfræðiblað í heimi og fjallar um málefni eins og þessi. Í nýjasta leiðara Economist er Austur-Evrópuþjóðunum sem gengið hafa í Evrópusambandið en ekki fengið að taka upp evruna bent á þá leið sem ég nefndi hér, einhliða upptöku á alþjóðlegum gjaldmiðli, sem góðan kost í þeirri slæmu stöðu og þeirri neyð sem þau eru í. Vel má vera að hv. þm. Árna Páli Árnasyni þyki sú leið heimskuleg og vitlaus en það vill nú bara þannig til að ég hef tilhneigingu til að hlusta frekar á sjónarmið leiðarahöfunda í Economist en þau sjónarmið sem hv. þingmaður ber hér fram. Það er alla vega mín skoðun.

Það sorglega í þessu máli, og það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, er að sú ríkisstjórn sem hv. þm. Árni Páll Árnason styður hefur sofið á verðinum. Ástandið í þessum málaflokki og þessum málum hefur versnað á vakt þessarar ríkisstjórnar. Ástandið hefur orðið alvarlegra með ríkisstjórn (Forseti hringir.) Samfylkingarinnar og Vinstri grænna en það var eftir að fyrri gjaldeyrislögin voru sett og þeirri stöðu verða menn að svara.