136. löggjafarþing — 122. fundur,  1. apr. 2009.

opinn fundur í fjárlaganefnd – afgreiðsla sérnefndar á frumvarpi um stjórnarskipunarlög.

[13:31]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Í morgun var haldinn opinn fundur í fjárlaganefnd þar sem hæstv. fjármálaráðherra mætti til fundar í nefndinni og átti nefndin orðastað við hæstv. ráðherra um stöðu efnahagsmála og framvindu samkomulags við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Í sjálfu sér voru þetta ágæt skoðanaskipti en upplýsingarnar sem nefndinni voru bornar voru engar. Það fengust engin svör frá hæstv. fjármálaráðherra um framvindu fjárlagaársins 2009. Það fengust engin svör um það hvers vænta mætti varðandi skattahækkanir eða niðurskurð í útgjaldapóstum fyrir fjárlögin 2010 og því síður um áform stjórnvalda til ársins 2011 og 2012.

Þetta er að því leytinu til alvarleg staða sem hér er uppi að það er innan við mánuður til kosninga og að sjálfsögðu eiga kjósendur í landinu sem og stjórnmálaöflin öll rétt á því að fá þær upplýsingar frá hæstv. fjármálaráðherra sem gera okkur kleift að ræða við kjósendur í aðdraganda alþingiskosninga. Hæstv. fjármálaráðherra upplýsti hins vegar að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur allar þessar upplýsingar undir höndum. Áform minnihlutastjórnarinnar eru um þessa svokölluðu blönduðu leið skattahækkana og niðurskurðar en engin ástæða er talin til að upplýsa Alþingi Íslendinga um þau áform, því miður. Við reiknum því með því að þau atriði sem þarna eru inni geri ráð fyrir því að skattahækkanir verði lagðar á eldri borgara og öryrkja, ungt fólk og atvinnulausa o.s.frv.

Ég skora á hv. þm. Jón Bjarnason, varaformann fjárlaganefndar, að upplýsa það á hinu háa Alþingi hvort hann ætli að bera blak af þessum vinnubrögðum og hvort hann telji þau ekki í algerri mótsögn (Forseti hringir.) við þann málflutning sem hann hefur sjálfur haldið uppi á undanförnum árum á þingi.