136. löggjafarþing — 122. fundur,  1. apr. 2009.

opinn fundur í fjárlaganefnd – afgreiðsla sérnefndar á frumvarpi um stjórnarskipunarlög.

[13:53]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Á opnum fundi með fjárlagaráðherra í morgun komu fram upplýsingar sem gera það að verkum að full ástæða er til að hafa áhyggjur af áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um að reisa við efnahagslegan stöðugleika hér á landi. Það kom fram að í 15. lið viljayfirlýsingar um áform íslenskra stjórnvalda vegna fjárhagslegra fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að hann þurfi að fara yfir umgjörð ríkisfjármála og leggja fram tillögur þar að lútandi og að fjármagn sveitarfélaga verði að samræmast betur áformum í ríkisfjármálum. Það kom fram á fundinum með fjármálaráðherra í morgun að þessi vinna er ekki farin af stað. Nefndin sem átti að skoða þetta lauk störfum fyrir viku eða tíu dögum síðan Og þessar upplýsingar áttu að liggja fyrir á þeim tíma. Hún er farin og nefndin sem átti að skoða þetta var skipuð í síðustu viku.

Við hljótum líka að velta fyrir okkur að í síðustu viku var einnig skipuð nefnd til þess að skoða rammafjárlögin, hagræðingu og endurskipulagningu í ríkisbúskapnum. Þetta er vinna sem átti að liggja fyrir áður en nefndin frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum kæmi til Íslands. Við hljótum því að velta því fyrir okkur hver staða þessarar áætlunar sé. Nú stöndum við frammi fyrir því að önnur greiðsla átti að koma á þessum dögum eða væri handan við hornið. En það upplýstist í morgun að annarrar greiðslu væri fyrst að vænta í júní nk. og maður veltir fyrir sér: Hver eru áhrifin á endurskipulagningu á ríkisbúskapnum hér á landi? Hvaða áhrif hefur það á ríkisfjármálin? Hvaða áhrif hefur það á efnahagslífið hér á landi?

Það sem kom fram í morgun veldur mér miklum áhyggjum. Það er alveg ljóst að áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi er farin úr skorðum, tímaáætlanir standast ekki með ófyrirséðum afleiðingum fyrir íslenskt efnahagslíf.