136. löggjafarþing — 122. fundur,  1. apr. 2009.

afgreiðsla sérnefndar á frumvarpi um stjórnarskipunarlög.

[14:05]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ekki ætla ég að fara náið út í það hvað fór á milli hv. þingmanna Valgerðar Sverrisdóttur og Arnbjargar Sveinsdóttur. Ég veit það eitt að á mánudaginn þegar hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir var að ræða þessi mál var ég sjálfur upptekinn af persónulegum ástæðum. Það var líka vitað að formenn stjórnmálaflokkanna ætluðu að hittast um kvöldið og við sögðum hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur það, sjálfstæðismenn, að okkur þætti eðlilegt að þær viðræður ættu sér stað á þeim tímapunkti til þess að menn gætu rætt þetta mál í samhengi við lok mála í þinginu almennt.

Ég vil geta þess líka að margt hefur verið með miklum ólíkindum í sambandi við þetta mál. Eins og hv. þm. Björn Bjarnason rakti hér fyrr í dag vorum við að fá gesti til nefndarinnar alveg fram á síðustu stundu þannig að mikil efnisleg umræða um málið hafði ekki átt sér stað án þess að gestir væru viðstaddir og það skýrir auðvitað hvers vegna málin voru komin í þennan farveg í morgun.

Það er hins vegar athyglisvert að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir (Forseti hringir.) kaus að (Gripið fram í.) höggva á hnútinn í morgun og hafna (Forseti hringir.) því að leita frekari leiða til að ná samkomulagi í málinu.