136. löggjafarþing — 122. fundur,  1. apr. 2009.

erlent eignarhald á íslenskum fyrirtækjum.

447. mál
[14:08]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (U):

Virðulegi forseti. Í nýjasta fréttablaði ríkisskattstjóra, Tíund, er á forsíðu fyrirsögnin „Skattasmugur frítekjumanna“ og mynd af þekktum eyjum úr umræðunni hér, Cayman-eyjum, Tortóla og Guernsey svo nokkur dæmi séu nefnd. Þar er grein eftir Aðalstein Hákonarson, sem starfar hjá embættinu, og í útdrætti á henni segir, með leyfi forseta:

„Þá hafa íslenskir bankar þjónustað aðila sem skattskyldir eru á Íslandi við að flytja tekjur sem þeim bar að greiða skatta af hér á landi inn fyrir virkisgarð dótturfélaga sinna erlendis.“

Með öðrum orðum, þarna er vakin athygli á því að íslenskar fjármálastofnanir hafa beinlínis aðstoðað fyrirtæki og skattskylda aðila við að flytja innlent fé til útlanda til að komast hjá skattlagningu. Það minnir mig á grein eftir fyrrverandi ríkisskattstjóra, Indriða H. Þorláksson, sem birtist á heimasíðu hans í marsmánuði 2008 og heitir „Eignarhald á íslenskum fyrirtækjum – Hvert rennur hagnaður þeirra og skattar?“ Hann vekur athygli á því að samkvæmt athugunum sem hann hefur framkvæmt þá hafði bein fjármunaeign erlendra aðila á Íslandi margfaldast á aðeins fjórum árum. Árið 2002 var erlend fjármunaeign 64 milljarðar kr. en í árslok 2006 var fjárhæðin 538 milljarðar kr. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að þessi erlenda fjármunaeign hér á landi sé að stórum hluta fjármunir í eigu íslenskra aðila sem hafi flutt fé sitt til útlanda og notað það þaðan til að fjárfesta á Íslandi. Enn fremur að líklegt sé að menn komi sér undan því að greiða skatta af fénu sem sé upprunnið hér á landi með því að flytja það út, t.d. til Hollands, og skrá það formlega þar.

Hann segir, með leyfi forseta, í grein sinni:

„Af þessum sökum rennur verulegur hluti af hagnaði af starfsemi félaga hér á landi til erlendra aðila og hagnaður af starfsemi íslenskra fyrirtækja erlendis sem eru í eigu þessara félaga ílendist ekki hér. Þá hefur þetta fyrirkomulag veruleg áhrif til lækkunar á skatttekjum hér á landi …“

Hann segir jafnframt líka, með leyfi forseta:

„Erlent eignarhald á íslenskum félögum, hvort sem það er raunverulega erlent eða dulið íslenskt eignarhald, hefur mikil áhrif á tekjur ríkissjóðs“

Af því að nú ber svo vel í veiði að greinarhöfundur er orðinn tímabundið ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu og þá eru hæg heimatökin hjá hæstv. fjármálaráðherra að kynna sér þessi mál, hef ég leyft mér að bera fram eftirfarandi fyrirspurn:

„Hver eru talin hafa verið áhrif erlends eignarhalds á íslenskum félögum á tekjur ríkissjóðs og hver er helsta skýringin á þeim?“