136. löggjafarþing — 122. fundur,  1. apr. 2009.

erlent eignarhald á íslenskum fyrirtækjum.

447. mál
[14:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Það er hárrétt að þau fyrirtæki sem eru með eignarhald víða um heim og sérstaklega í þessum Jómfrúreyjum og öðrum eyjum, koma sér undan því að borga skatta til ríkisins en það er ekki aðalvandinn. Aðalvandinn er sá að eignarhaldið er líka dulið og mjög margt er svipað hulu með þessum fyrirtækjum og það skaðar atvinnulífið miklu meira. Krosseignarhald getur verið dulið á þennan hátt, keðjueignarhald o.s.frv.

Síðast á dagskrá fundarins í dag er þingsályktunartillaga frá mér um að búa til hlutafélög með gagnsæju eignarhaldi. Ég held að það sé lausn okkar á þessum vanda og lausn okkar á þeim vanda sem fjármálamarkaðurinn og atvinnulífið hefur liðið fyrir og hugsanlega hefur valdið því hruni sem varð í haust. Ég held að svarið sé heiðarleiki og gagnsæi.