136. löggjafarþing — 122. fundur,  1. apr. 2009.

erlent eignarhald á íslenskum fyrirtækjum.

447. mál
[14:20]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Pétri Blöndal. Það er alveg laukrétt að vandamálið er tvíþætt þegar þetta eignarhald á aflandssvæðum í gegnum keðju félaga, dótturfélaga, eignarhaldsfélaga, skúffufélaga á í hlut. Það er ekkert síður það sem stingur í augu að þarna er verið að dylja eignarhald og fela hina raunverulegu eigendur um leið og yfirleitt er einhver viðleitni í gangi til að komast undan sköttum og hvort tveggja á auðvitað að stoppa. Það má þá kannski kalla það lán í óláni að fátt sé svo með öllu illt að nú er í gangi mikil þróun á alþjóðavettvangi að taka á þessu af því að nú hafa menn lært af ósköpunum og sjá hversu óheilbrigt og skaðvænlegt þetta umhverfi var sem búið var til og staðinn var dyggur vörður um af ýmsum, t.d. Bretum, Bandaríkjamönnum og fleirum í anda þeirrar nýfrjálshyggju sem sveif yfir vötnunum þar sem allt átti að vera svo himnafrjálst og líka frjálst að borga ekki skatta og dylja eignarhald og annað í þeim dúr.

Ég held að það sé ástæða til að rifja það upp að skattstjórar, bæði núverandi og fyrrverandi, skattrannsóknarstjórar og ýmsir fleiri aðilar hafa á undanförnum árum verið að hvetja til aðgerða í þessum efnum. Það liggja fyrir margar góðar skýrslur um þau mál en það var ekkert gert af hálfu framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins, ekki neitt. Það er stórmerkilegt að uppgötva að það skyldi ekki einu sinni vera innleidd hér á landi sambærileg löggjöf og eiginlega alls staðar er búið að gera í kringum okkur, t.d. í sambandi við afdráttarskatta, vaxtagreiðslur úr landi og í sambandi við sérreglur í skattlagningu gagnvart lágskattasvæðum.

Ég legg áherslu á að það er mikilvægt að fá það frumvarp afgreitt sem nú liggur fyrir Alþingi. Þar er verið að taka á tveimur þessara þátta, mjög fortakslaust. Ég vil einnig láta koma fram að það er vinna í gangi í ráðuneytinu til þess að stórefla eftirlit í þessum efnum og til að styðja við bakið á skattyfirvöldum í staðinn fyrir að halda aftur af þeim í því að sinna starfi sínu með skilvirkum hætti og það verður gert á meðan ég hef eitthvert húsbóndavald í fjármálaráðuneytinu.