136. löggjafarþing — 122. fundur,  1. apr. 2009.

verðbætur á lán.

[14:54]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Karli V. Matthíassyni fyrir að taka þetta brýna mál til umræðu. Okkur framsóknarmönnum er eins og flestum öðrum í nöp við verðtrygginguna. Við höfum ályktað um þau mál og þar segir að til lengri tíma sé nauðsynlegt fyrir alla hagstjórn að hlutfall verðtryggðra skuldbindinga minnki og leikur framtíðarfyrirkomulag gjaldmiðilsmála þar lykilhlutverk. Á síðasta flokksþingi okkar ræddum við þessi mál ofan í kjölinn og ég verð að segja eins og er að ég sé ekki fyrir mér að krónan sé framtíðargjaldmiðill okkar Íslendinga. Krónan er of óstöðugur og of lítill gjaldmiðill. Við ályktuðum um að Ísland ætti að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið og gera það með ákveðnum skilyrðum. Þangað til tekin yrði afstaða til þess hvort við gengjum inn eða ekki þyrfti að brúa bilið varðandi það að geta tekið upp evruna. Við þyrftum að reyna að tengja íslensku krónuna við evru með sama hætti og gert er með dönsku krónuna.

Virðulegur forseti. Ég vil einnig nota tækifærið og spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í bankana. Nú er alveg ljóst að íslensku bankarnir hafa hækkað kjör á almenning. Vaxtakjörin hækkuðu nýlega og eru komin í 800–900 punkta á skuldugan almenning. Við vitum að ríkisbankarnir eru ekki að borga neitt af erlendum lánum. Á þinginu erum við að samþykkja lög um greiðsluaðlögun fyrir almenning og um leið eru ríkisbankarnir að hækka álögur sínar. Er þetta ekki öfugsnúið, hæstv. fjármálaráðherra? Er stefna ríkisstjórnarinnar í hnotskurn sú að ríkisbankarnir hækka svona álögurnar á sama tíma og við erum að reyna að koma til móts við almenning með greiðsluaðlögun?

Ég spyr einnig hæstv. fjármálaráðherra um þá ákvörðun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að niðurgreiða tap áhættufjárfesta í peningamarkaðssjóðum eins og menn þekkja. (Forseti hringir.) Maður hlýtur að spyrja: Eiga skuldarar þessa lands að endurgreiða þessi útgjöld ríkissjóðs með þessum auknu álögum sem (Forseti hringir.) bankarnir hafa ávaxtað á lánum?