136. löggjafarþing — 122. fundur,  1. apr. 2009.

verðbætur á lán.

[14:57]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (U):

Virðulegi forseti. Þegar vatnið sýður skiptir ekki máli hvort hitastig á því er mælt á Celsíus eða Fahrenheit. Það er það sama þó að tölurnar séu ólíkar af því að mælikvarðinn er hvor sinn. Niðurstaðan er sú sama, það er sama hitastig. Ég vara við því að menn gefi í skyn að með því að afnema verðtrygginguna sé hægt að lækka vexti almennt hjá þeim sem skulda. Vextirnir skipta bara um nafn. Rannsóknir sýna að grípi menn til þess ráðs að styðjast eingöngu við óverðtryggða vexti verða þeir hærri og að jafnaði ívið hærri en verðtryggðir vextir eru í dag þannig að það er — (Gripið fram í.) já, samanlagðir vextir á verðtryggingu og raunvextir borið saman við óverðtryggða þýðir einfaldlega að það hallar á skuldara að skipta úr verðtryggða kerfinu. Sú er niðurstaðan. Menn mega mín vegna banna verðtryggingu en menn bæta ekki hag skuldara.

Menn þurfa líka að gæta að því að heimili landsins eiga eignir sem eru u.þ.b. þrisvar sinnum meiri en skuldir. Heimili landsins eiga þannig mest undir því að fjármagnið sé tryggt, sé ekki lánað út með neikvæðum vöxtum, og ef eitthvað mun halla á eigendur fjármagns í þessum breytingum munu heimilin tapa mestu í þeim efnum í formi sparifjár, lífeyrisréttinda og annars slíks. Menn eru alltaf að velta krónunni á milli sömu aðila og heimili landsins græða ekki mikið á þessum málflutningi.

Ég bendi líka á að á undanförnum árum hefur kaupmáttur launa hækkað mun meira en nemur verðtryggingunni þannig að það hefur verið ávinningur fyrir þá sem reikna á þennan veg. Má þá spyrja: Var þá fjármagnið vantryggt ef það er oftryggt á því tímabili sem gerist núna, (Forseti hringir.) að kaupmáttur fellur og verður því minni (Forseti hringir.) en sem nemur ávöxtun fjár?