136. löggjafarþing — 122. fundur,  1. apr. 2009.

verðbætur á lán.

[14:59]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst hvað er að gerast í okkar þjóðfélagi að því er varðar lántegundir með verðtryggð lán. Íbúðalán sem fólk hefur tekið á undanförnum árum hækka en það sem gerist á hinn veginn er að íbúðaverð lækkar. Það verður mikið misgengi á milli þess hvernig lánin mælast upp og hvernig eignirnar á bak við lækka í verði. Þar að auki er svo minnkandi kaupmáttur og skerðing á afkomu fólks. Við höfum fyrir framan okkur það vandamál sem við í Frjálslynda flokknum höfum réttilega varað við í nokkur ár. Við höfum lagt það oft til í þinginu að menn færu í þá vinnu að skoða með hvaða hætti væri hægt að taka verðtrygginguna burt af lánaskuldbindingum. Við auglýstum fyrir kosningarnar 2003 eitthvað á þessa leið: Verður þú gjaldþrota? Við spurðum: Hvað gerist ef verðbólgan fer af stað o.s.frv.? Því miður erum við á þeim stað núna með fjöldamörg heimili.

Þess vegna er svo komið að margir stjórnmálaflokkar eru farnir að taka undir þessar ábendingar okkar á undanförnum árum, að það verði að skoða verðtryggingarútfærsluna og vísitöluna. Ég fagna því, hæstv. forseti, að svo sé komið að menn séu orðnir tilbúnir til að skoða það fyrirkomulag sem við höfum hér á landi.

Í Noregi og Danmörku geta menn annaðhvort tekið lán með breytilegum vöxtum eða föstum vöxtum. Lántakendurnir geta meira að segja skipt um vaxtafyrirkomulag á lánstímanum, þ.e. ef þeir hafa tekið breytilega vexti geta þeir breytt yfir í fasta. (Forseti hringir.) Það er hægt að semja um það við lánastofnunina að ábyrgðinni sé skipt og menn (Forseti hringir.) geta sett þak á ábyrgðir. Slíkt fyrirkomulag er ekki til staðar hér á landi og það er mikil þörf á því að við lagfærum ástandið.