136. löggjafarþing — 122. fundur,  1. apr. 2009.

verðbætur á lán.

[15:01]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil eins og aðrir þakka fyrir þá umræðu sem hér fer fram um verðtrygginguna sem fyrirbæri á lánum hér á landi. Það er kunnara en frá þurfi að segja að verðtryggingin er frekar óvenjulegt fyrirbæri. Það er ekki algengasti hátturinn sem hafður er á lánum ef við horfum á löndin í kringum okkur. Það má segja að þetta sé tiltölulega séríslenskt fyrirbrigði, því hin almenna regla er að sjálfsögðu sú að menn semji um skuldbindingar sínar með annaðhvort breytilegum eða föstum vöxtum eftir atvikum og auðvitað væri ákjósanlegast að við byggjum líka við þá stöðu hér á landi.

Verðtryggingunni var komið á fyrir um þremur áratugum með svokölluðum Ólafslögum og við hana höfum við búið allar götur síðan. Því hefur verið haldið fram, og ég hygg með talsvert réttu, að erfitt sé að vinda ofan af verðtryggingunni á meðan verðbólgan er jafnmikil og hún er um þessar mundir. Það var ástæðan fyrir því að menn einsettu sér í kjölfar þjóðarsáttarsamninganna í kringum 1990 að afnema verðtrygginguna þegar verðbólgan færi niður og aðstæður sköpuðust til þess. Við það var ekki staðið, því miður, og ég er sannfærður um að við værum í betri stöðu ef það hefði verið gert.

Hins vegar er vandinn sem blasir við íslenskum heimilum og atvinnulífi í dag fyrst og fremst greiðslubyrðin, það sem menn borga af lánunum í dag og há verðbólga og háir vextir valda því.

Auðvitað er það óviðunandi ástand með öllu að sá sem tekur lán skuli vera algjörlega óvarinn gagnvart verðtryggingunni á tímum verðbólgu en sá sem veitir lán skuli alltaf vera bæði með belti og axlabönd.

Þess vegna er mikilvægt, eins og hér hefur komið fram, að við leitum allra leiða nú á næstunni til að lækka höfuðstól húsnæðislána, frysta hluta hækkunar höfuðstólsins t.d. vegna (Forseti hringir.) verðbólguskotsins og að stjórnvöld geri tímasetta áætlun um afnám verðtryggingar. Ég skildi (Forseti hringir.) hæstv. fjármálaráðherra þannig að það væri ásetningur að gera það.